Friday - 02. March

Bandaríkjamenn ánægðastir með Íslandsdvölina

Samkvæmt mælingu Gallup á ánægju ferðamanna í janúar eru Bandaríkjamenn ánægðastir með dvöl sína á Íslandi og mældust efstir í Ferðamannapúlsinum með 84,5 stig. Bretar mældust í öðru sæti með 83,8 stig, Danir í þriðja með 83,6 stig, Kanadabúar í fjórða með 82,8 stig og Ástralar í fimmta með 82,4 stig. Á hinum endanum mældist Ferðamannapúlsinn lægstur meðal ferðamanna frá Kína 74,7 stig. Ferðamenn 69 þjóða svöruðu að þessu sinni Ferðamannapúlsinum sem mælir heildarupplifun ferðamanna af Íslandsferðinni og fjórar af fimm efstu þjóðunum eru enskumælandi.

Lítil breyting á ánægju erlendra ferðamanna milli mánaða
Gallup kannar viðhorf erlendra ferðamanna til Íslands í hverjum mánuði og reiknar út Ferðamannapúls* út frá niðurstöðunum. Ferðamannapúlsinn byggir á fimm spurningum sem mæla heildaránægju ferðamanna, hvort ferðamenn telji að Íslandsferðin hafa verið peninganna virði, hvort hún hafi staðist væntingar þeirra, líkur á meðmælum og mati ferðamanna á gestrisni Íslendinga. Í janúar mældist Ferðamannapúlsinn með 83,0 stig af 100 mögulegum og hækkar hann um 0,5 stig á milli mánaða.

Fjórir af fimm undirþáttum Ferðamannapúlsins hækka

Þegar litið er til undirþátta Ferðamannapúlsins mældust fjórir af fimm þeirra hærri í janúar en mánuðinum áður. Þátturinn sem mælir hvort ferðin hafi uppfyllt væntingar ferðamanna hækkaði um 1,1 stig, líkur á meðmælum um 1,0 stig, mat á gestrisni Íslendinga um 0,7 stig og hvort ferðin hafi verið peningana virði um 0,5 stig. Þátturinn sem mælir heildaránægju lækkaði um 0,3 stig.

  

Mynd 1: Þróun Ferðamannapúlsins á tímabilinu desember 2016 til janúar 2017

 


Mynd 2: Fimm efstu og neðstu þjóðir Ferðamannapúlsins í janúar 2018

Ferðamannapúlsinn* mælir heildarupplifun ferðamanna af Íslandsferðinni.

Ferðamannapúlsinn byggir á fimm spurningum sem allar vigta jafnt:

  • Heildaránægju með Íslandsferðina
  • Líkur á meðmælum
  • Uppfyllingu væntinga
  • Almenna gestrisni
  • Hvort ferðin hafi verið peninganna virði

Könnunin er send á netföng ferðamanna sem nýlega hafa farið um Keflavíkurflugvöll. Mánaðarlega er safnað u.þ.b. 1500 svörum og eru niðurstöður vigtaðar eftir þjóðerni.

* Ferðamannapúlsinn er samstarfsverkefni Isavia, Ferðamálastofu og Gallup og byggja mælingar á netföngum ferðamanna sem fara í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar.