Rúmlega 120 stjórnendur og áhugafólk um mannauðsmál mættu á morgunverðarfund Gallup sem haldinn var síðastliðinn föstudag á Hilton Reykjavík Nordica undir yfirskriftinni Árangur er engin tilviljun. Þema fundarins var stjórnun og helgun - áhrif á starfsfólk, viðskiptavini og líðan. Aðalfyrirlesari fundarins var Chloe Strauss stjórnunarráðgjafi hjá Gallup í London en einnig fluttu erindi þau Tómas Bjarnason, sviðsstjóri starfsmannarannsókna hjá Gallup á Íslandi, Marta Gall Jörgensen, Vala Jónsdóttir og Haukur Ingi Guðnason sérfræðingar hjá Gallup á Íslandi.

Chloe Strauss

Mikilvægt að þekkja starfsfólkið og styrkleika þess

Í erindi sínu sagði Chloe að stjórnendur sem þekkja starfsfólk sitt og styrkleika þess, setja fram skýrar væntingar, eru í tíðum samskiptum við sitt teymi og vinna að markmiðasetningu með starfsfólki væru líklegastir til að ýta undir helgun starfsfólks. Jafnframt kom hún inn á að rannsókn Gallup á helgun starfsfólks í 140 löndum sýni að aðeins séu að meðaltali 13% starfsmanna helgaðir í starfi sínu, á Íslandi sé hlutfallið 12%. Fyrir utan forystu stjórnenda skipti einnig máli að þekkja starfsfólkið sitt vel.

Chloe fjallaði einnig um aðgerðir til að auka helgun starfsfólks hjá fyrirtækjum en helgun starfsfólks hefur áhrif á rekstrarárangur fyrirtækja sem og ánægju viðskiptavina, framleiðni starfsfólks og starfsmannaveltu. „Það er gott og gilt að mæla en það má ekki vera fókusinn, stjórnendur þurfa líka að leggja áherslu á aðgerðir og hegðunarbreytingu. Góð samskipti eru lykillinn að góðum árangri. Starfsmenn sem fá aðstoð stjórnenda sinna við að setja markmið eru 17% líklegri til að ná markmiðum sínum.“

Chloe fór yfir gagnsemi framistöðuviðtala en samkvæmt rannsóknum Gallup telja um 50% starfsmanna að viðtölin virki ekki sem skildi. „Það fer eftir hæfileikum stjórnandans hvort frammistöðuviðtöl stuðli að aukinni helgun starfsfólks, samtalið þarf að vera tvíhliða samtal og nálgunin þarf að vera einstaklingsmiðuð til að samtalið virki,“ sagði Chloe.

Tómas Bjarnason i pontu

Tryggð starfsfólks á atvinnumarkaði hefur ekki mælst lægri síðan 2002

„Samkvæmt rannsóknum Gallup hefur tryggð starfsfólks á atvinnumarkaði ekki mælst lægri síðan 2002 og hefur aukin helgun og jákvæðari afstaða til fyrirtækisins ekki skilað sér í aukinni tryggð,“ sagði Tómas í erindi sínu.

„Á síðustu árum hefur um fimmtungur starfsfólks að jafnaði talið líklegt (mjög eða eða frekar líklegt) að það muni leita að starfi hjá öðrum atvinnurekanda af einhverri alvöru á næstu 12 mánuðum. Það áhugaverða er að tengslin milli leitar og starfsumhverfisþátta eru sterkari fyrir starfsfólk á aldrinum 25-34 ára en eldri hópana.“ Að sögn Tómasar eru það ekki sömu þættir sem spá best fyrir um leit hjá yngsta hóp og öðrum hópum. „Þeir sem yngri eru leggja meiri áherslu á liðsheild, þróun, tilgang og að nýta styrkleika sína á meðan eldri hópar leggja áherslu á umhyggju, tæki og gögn, samskipti um frammistöðu og skýrar væntingar.“

Vala og  Marta

Hvað gera þeir bestu?

Marta og Vala fóru yfir það hvað einkennir árangursríka stjórnendur. Samkvæmt rannsóknum Gallup í Bandaríkjunum eru árangursríkir stjórnendur ólíkir en eiga það sameiginlegt að taka ábyrgð og deila ábyrgð til starfsfólks. Þeir tryggja að starfsfólk viti hvers er ætlast til af því og hvernig framlag þess tengist árangri og framtíðarsýn fyrirtækisins. Góðir stjórnendur eru einnig góðir í að hvetja og virkja fólkið sitt og byggja upp samskipti sem einkennast af trausti, gagnsæi og heiðarleika. Þeir hafa seiglu til að takast á við áskoranir og taka ákvarðanir byggðar á frammistöðu en ekki t.d. klíkuskap. Þær fóru einnig yfir hvernig viðhorf starfsfólks til stjórnenda sinna hafa breyst á undanförnum árum og hverju starfsfólk sem er hvorki helgað í starfi né tryggt fyrirtækinu er helst að kalla eftir frá stjórnendum sínum. Þessu starfsfólki skortir oft meiri viðurkenningu, hvatningu og umhyggju, þ.e. að tekið sé eftir framlagi þeirra og að það sé metið.

Haukur Ingi Guðnason i pontu

Af hverju er svona erfitt að breyta hegðun?

Haukur Ingi sagði í erindi sínu að það væri ekki nóg að vita hvernig á að vera góður stjórnandi, viðkomandi þarf einnig geta hagað sér í samræmi við þær leiðir sem eru bestar hverju sinni. Fólk hefur tilhneigingu til að hafa ótal rökvillur og er oft fast í viðjum vanans. Haukur Ingi fjallaði um leiðir sem stjórnendur geta nýtt sér til að breyta hegðun til lengri tíma litið. Hann sagði einnig frá aðferðum sem hafa jákvæð áhrif á frammistöðu og helgun starfsfólks, t.d. hvernig stjórnendur geta notað endurgjöf á réttan máta og frá mikilvægi samskipta almennt. Það er lykilatriði fyrir stjórnendur að gera þær væntingar sem þeir hafa til starfsfólks skýrar. Til að efla frammistöðu starfsfólks er best að horfa á styrkleika fólks í stað þess að einblína á veikleika þess, en allra verst fyrir frammistöðu er að hunsa starfsfólk.