Helmingur þeirra sem sóttu Ísland heim í október sáu norðurljós samkvæmt nýjasta Ferðamannapúlsi Isavia, Ferðamálastofu og Gallup. Einungis 12% þeirra sem sáu norðurljós sögðu að þau hefðu að litlu eða engu leyti uppfyllt væntingar þeirra. Heildaránægja með ferðina lækkar lítillega milli mánaða en einkunnin í október er 83,6 af 100 mögulegum en var 84,9 stig í september. Ferðamenn eru engu að síður mjög ánægðir með Ísland sem áfangastað og eru rúmlega 90% þeirra líklegir til að mæla með landinu.

Ferðamannapúls okt 2017 heild


Norðmenn ánægðastir

Í október gáfu ferðamenn frá Noregi hæstu einkunnina eða 86,5 stig. Þar á eftir koma Hollendingar með 85,6 stig og þá Danir og Frakkar. Írar eru síst ánægðir þeirra ferðamanna sem sóttu Ísland heim í október en þeir gefa 79,6 stig í meðaleinkunn.

Ferðamannapúls okt 2017 hæstu og lægstu

Bandaríkjamenn og Bretar gefa lægri einkunn en áður

Af undirþáttum Ferðamannapúlsins þá lækkar sá þáttur er lýtur að uppfyllingu væntinga hvað mest milli mánaða, úr 82 stigum í september í 78,6 stig í október, af 100 mögulegum. Aðrir þættir lækka minna utan eins, almennrar gestrisni, sem hækkar smávægilega. Þegar litið er til fjölmennustu hópa ferðamanna hér á landi, Bandaríkjamanna og Breta, þá virðist ferðin síður hafa uppfyllt væntingar þeirra í október en áður. Einkunn beggja þessara þjóða á væntingaþættinum er tæplega 78 stig en hafði verið á bilinu 81-85 stig fram að því.

Ferðamannapúls okt 2017 undirþættir

Norðurljósin heilla

Í október voru þátttakendur spurðir hvort þeir hefðu séð norðurljós meðan á Íslandsdvölinni stóð. Tæplega helmingur, eða 49,1%, sagðist hafa séð norðurljós meðan á dvölinni stóð en tæpt 51% hafði ekki séð þau. Af þeim sem sáu norðurljós hafði tæplega 31% farið í skipulagða norðurljósaferð. Þegar þeir sem sáu norðurljós voru spurðir hvort norðurljósin hefðu uppfyllt væntingar þeirra sögðu 35% að þau hefðu að öllu leyti uppfyllt væntingar þeirra. Tæplega 30% sögðu að þau hefðu að miklu leyti uppfyllt væntingar þeirra, 23% að sumu leyti, rúm 10% að litlu leyti en 2% sögðu að norðurljósin hefðu að engu leyti uppfyllt væntingar þeirra.

* Ferðamannapúlsinn er samstarfsverkefni Isavia, Ferðamálastofu og Gallup og byggja mælingar á netföngum ferðamanna sem fara í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Nánari upplýsingar um Ferðamannapúlsinn