Næstum þrír af hverjum fjórum sem tóku afstöðu segjast styðja ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup. Þegar stuðningur við ríkisstjórnir er skoðaður aftur til 1995 hafði aðeins ein ríkisstjórn meiri stuðning í upphafi stjórnartíðar sinnar. Þetta var ríkisstjórn Geirs H. Haarde sem mynduð var í lok maí 2007 en hún naut stuðnings 76-83% kjósenda fram í janúar 2008. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar náði svo um 75% stuðningi í ágúst 1999, skömmu eftir kosningar.

Stuðningur við ríkisstjórn des 2017

Litlar breytingar eru á fylgi flokka og breytist fylgi þeirra um á bilinu 0,3 - 1,5 prósentustig. Liðlega 25% segjast nú myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, rúmlega 17% Vinstri græn, tæplega 16% Samfylkinguna, nær 12% Framsóknarflokkinn, liðlega 10% Pírata, tæplega 7% Viðreisn, næstum 6% Miðflokkinn, rösklega 5% Flokk fólksins og ríflega 2% aðra flokka, þar af rúmlega 1% Bjarta framtíð.

Fylgi flokka des 2017

Tæplega 7% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og 5% svarenda segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag.

Spurt var:

  • Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa?
  • En hvaða flokkur yrði líklegast fyrir valinu?
  • Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?
  • Styður þú ríkisstjórnina?

Niðurstöður sem hér birtast um fylgi flokkanna á landsvísu eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 30. nóvember til 28. desember 2017. Heildarúrtaksstærð var 7.001 og þátttökuhlutfall var 55,2%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,3-1,5%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

Nánari upplýsingar um Þjóðarpúls Gallup