Gallup kannaði hug þjóðarinnar til þeirrar ákvörðunar Bjartrar framtíðar að slíta ríkisstjórnarsamstarfi. Rúmlega 62% þeirra sem taka afstöðu eru hlynnt ákvörðun Bjartrar framtíðar á meðan tæplega 29% eru andvíg henni. Nær 9% segjast hvorki hlynnt né andvíg ákvörðuninni.

Stjórnarslit mynd 1

Þeir sem eru undir fertugu eru að jafnaði hlynntari ákvörðuninni en þeir sem eldri eru. Einnig kemur fram munur eftir búsetu og tekjum svarenda, sem og því hvaða flokk þeir kysu ef kosið yrði til Alþingis í dag. Um 95% þeirra sem kysu Samfylkinguna eða Pírata eru hlynntir ákvörðuninni á meðan einn af hverjum tíu sem kysu Sjálfstæðisflokkinn er hlynntur henni.

Stjórnarslit mynd 2

Tilefni til stjórnarslita?

Landsmenn voru einnig spurðir um álit sitt á því hvort nýliðnir atburðir hefðu gefið tilefni til stjórnarslita. Niðurstöðurnar eru svipaðar og við spurningunni á undan. Rúmlega 62% þeirra sem taka afstöðu eru sammála því að atburðirnir hafi gefið tilefni til stjórnarslita á meðan tæplega 32% eru ósammála því. Tæplega 6% segjast hvorki sammála né ósammála.

Stjórnarslit mynd 3

Aftur telja þeir sem eru undir fertugu frekar að atburðirnir hafi gefið tilefni til stjórnarslita en þeir sem eldri eru, og munur kemur fram eftir tekjum svarenda sem og því hvaða flokk þeir kysu ef kosið yrði til Alþingis í dag. Nær 96% þeirra sem kysu Samfylkinguna eða Pírata eru sammála því að atburðirnir hafi gefið tilefni til stjórnarslita á meðan um einn af hverjum tíu sem kysu Sjálfstæðisflokkinn er sammála því.

Stjórnarslit mynd 4

Þingrof og kosningar

Í framhaldinu var fólk spurt um viðhorf sitt til þess að rjúfa þing og boða til kosninga. Ríflega sjö af hverjum tíu voru hlynntir því að þing væri rofið og boðað til kosninga á meðan tveir af hverjum tíu voru því andvígir. Rúmlega 8% voru hvorki hlynnt né andvíg.

Stjórnarslit mynd 5

Höfuðborgarbúar eru aðeins hlynntari því en íbúar landsbyggðarinnar að boðað verði til kosninga og talsverður munur er á viðhorfi fólks eftir því hvaða flokk það kysi ef kosið yrði til Alþingis í dag. Hátt í 95% þeirra sem kysu Samfylkinguna eða Pírata eru hlynntir því á meðan fjórir af hverjum tíu sem kysu Sjálfstæðisflokkinn eru hlynntir því. Ríflega 93% þeirra sem eru hlynntir ákvörðun Bjartrar framtíðar um stjórnarslit eru hlynnt því að boðað verði til kosninga en tæplega 32% þeirra sem eru andvíg stjórnarslitum. Svipuð hlutföll eru uppi á teningnum þegar greint er eftir viðhorfi fólks til þess hvort nýliðnir atburðir hafi gefið tilefni til stjórnarslita.

Stjórnarslit mynd 6

Ný ríkisstjórn

Loks var athugað hvaða flokkar fólk vildi að mynduðu stjórn ef ný ríkisstjórn væri mynduð í dag. Flestir nefna Vinstri græn eða tæplega 57%. Þar á eftir koma Framsóknarflokkurinn með nær 35%, Samfylkingin með næstum 33%, Sjálfstæðisflokkurinn með rúmlega 31% og Píratar með rúm 30%.

Stjórnarslit mynd 7

Mikill munur er á því hvaða flokka fólk nefnir eftir því hvaða flokk það kysi ef kosið yrði til Alþingis í dag.

Stjórnarslit mynd 8

Mjög misjafnt er hvaða samsetningar fólk nefnir þegar það er spurt hvaða flokkar það vilji að myndi nýja ríkis-stjórn. Það eru því tiltölulega fáir sem nefna hverja samsetningu. Þeir flokkar sem oftast eru nefndir saman eru Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur en 14% þeirra sem taka afstöðu nefna þá samsetningu.

Stjórnarslit mynd 9

Spurt var:

  • Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) þeirri ákvörðun stjórnar Bjartrar framtíðar að slíta ríkisstjórnarsamstarfi?
  • Ertu sammála eða ósammála því að nýliðnir atburðir hafi gefið tilefni til stjórnarslita?
  • Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að þing verði rofið og boðað verði til kosninga á næstu mánuðum?
  • Ef mynduð yrði ný ríkisstjórn í dag, hvaða flokkar, tveir eða fleiri, myndir þú vilja að mynduðu ríkisstjórn?

Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem gerð var dagana 15. til 19. september 2017. Heildarúrtaksstærð var 1.413 og þátttökuhlutfall var 53,4%. Einstaklingar voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

Nánari upplýsingar um Þjóðarpúls Gallup