Gallup kannaði á dögunum traust almennings til ýmissa stofnana samfélagsins.

Sú stofnun sem almenningur ber mest traust til af þeim stofnunum sem spurt var um er Landhelgisgæslan, en nær 92% bera mikið traust til hennar og er það mesta traust sem mælst hefur hingað til. Næst kemur lögreglan, sem nýtur trausts rúmlega 74% landsmanna, en traust til lögreglunnar hefur þó ekki mælst lægra í tíu ár. Loks bera ríflega 72% svarenda mikið traust til Háskóla Íslands.

Traust til stofnana 2016

Rúmlega 57% bera mikið traust til embættis forseta Íslands en það er hærra hlutfall en síðustu tvö ár. Ríflega 52% bera mikið traust til umboðsmanns Alþingis, nær 51% til ríkissaksóknara og ríflega 48% til ríkissáttasemjara.

Ríflega 46% bera mikið traust til heilbrigðiskerfisins en það er mun lægra en hefur áður mælst. Nær 39% bera mikið traust til þjóðkirkjunnar. Rúmlega 32% bera mikið traust til dómskerfisins og er það lægra hlutfall en síðustu ár.

Ríflega 29% bera mikið traust til Seðlabankans, nær 28% til embættis umboðsmanns skuldara og 22% til fjármálaeftirlitsins.

Tæplega 19% bera mikið traust til borgarstjórnar Reykjavíkur og er það lægra hlutfall en síðustu ár, 17% bera mikið traust til Alþingis og rúmlega 12% til bankakerfisins.

Traust til stofnana 2016 þróun