Traust almennings til nokkurra opinberra stofnana samfélagsins hefur verið kannað hjá Gallup um árabil* og birt opinberlega undir merkjum Þjóðarpúls Gallup.

Helstu breytingar

Traust til flestra stofnana sem mældar eru í Þjóðarpúlsi Gallup mælist svipað og í fyrra. Helstu breytingar eru þær að traust til Seðlabanka Íslands fer niður um sjö prósentustig og traust til borgarstjórnar Reykjavíkur fer upp um sex prósentustig.

traust_01

* Listinn yfir þær stofnanir sem eru mældar í Þjóðarpúlsi Gallup er langt frá því að vera tæmandi yfir opinberar stofnanir samfélagsins. Elstu mælingar Þjóðarpúlsins á trausti til stofnana eru frá árinu 1993.

Gallup á Íslandi mælir fleiri stofnanir og stendur forsvarsmönnum þeirra til boða að kaupa mælingar til að sjá hvar þær standa miðað við stofnanir sem eru mældar í Þjóðarpúlsi og fá auk þess ónafngreindan samanburð við aðrar mældar stofnanir.

Í gegnum tíðina hafa stofnanir sem eru ekki hluti af Þjóðarpúlsi Gallup mælst með bæði meira og minna traust en þær stofnanir sem niðurstöður eru sýndar fyrir hér.

Ítarlegar niðurstöður

Liðlega níu af hverjum tíu bera mikið traust til Landhelgisgæslunnar, eða álíka margir og í fyrra, og mælist hún eins og áður með mest traust þeirra stofnana sem eru mældar í Þjóðarpúlsinum.

Háskóli Íslands, embætti forseta Íslands og lögreglan koma þar á eftir, en 70-73% bera mikið traust til þeirra. Það er svipað hlutfall og í fyrra.

Traust til heilbrigðiskerfisins er óbreytt í fyrra og mælist 57%. Traust til ríkissáttasemjara mælist 55% sem er örlitlu hærra en í fyrra þó breytingin sé ekki tölfræðilega marktæk.

Traust til umboðsmanns Alþingis stendur í stað frá síðustu mælingu, en um 46% bera mikið traust til hans.

Ríflega fjögur af hverjum tíu bera mikið traust til ríkissaksóknara sem er örlitlu hærra en í fyrra þó breytingin sé ekki tölfræðilega marktæk. Nær fjögur af hverjum tíu bera mikið traust til dómkerfisins sem er svipað hlutfall og í síðustu mælingu.

Traust til Seðlabankans heldur áfram að minnka, fer niður um 7 prósentustig og bera nú 32% mikið traust til bankans. Traust til hans hefur minnkað samtals um 30 prósentustig á síðustu þremur árum, en það jókst um 31 prósentustig á árunum tveimur þar á undan. Það er því komið á svipað ról og það var á árunum 2014 til 2019.

Rúmlega fjórðungur ber mikið traust til Alþingis og þjóðkirkjunnar en það er svipað hlutfall og í fyrra.

Borgarstjórn Reykjavíkur endurheimtir það traust sem hún missti árið á undan, en 19% bera nú mikið traust til hennar. Hlutfallið hækkar um sex prósentustig frá síðustu mælingu og er svipað og það var árin 2019 til 2022.

Bankakerfið nýtur minnst trausts þeirra stofnana sem eru mældar í Þjóðarpúlsinum en 16% bera mikið traust til þess. Hlutfallið mælist svipað og í fyrra.

traust_02

Spurt var:

  • Hversu mikið eða lítið traust berð þú til…? – Stofnanir og embætti birtust í tilviljunarkenndri röð.

Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 8.- til 22. febrúar 2024. Heildarúrtaksstærð var 1.802 og þátttökuhlutfall var 47,4%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

Sjá nánar upplýsingar um mælingar á trausti til stofnana.