Fáðu endurgjöf frá þjóðinni

Réttar og áreiðanlegar upplýsingar eru ekki síður mikilvægar fyrir opinbera geirann en einkageirann. Gallup leggur metnað sinn í að veita opinberum stofnunum, félagasamtökum og sveitarfélögum framúrskarandi þjónustu. Opinberir aðilar geta bæði nýtt sér kannanir sem Gallup gerir að eigin frumkvæði, eins og reglulegar mælingar á trausti til stofnana og mælingar á þjónustu sveitarfélaga eða kannanir sem eru klæðskerasniðnar að þörfum viðkomandi aðila.

Gallup hefur um árabil verið leiðandi í mælingum á viðhorfi íslensku þjóðarinnar til fjölbreyttra málefna. Gallup hefur ávallt lagt ríka áherslu á hlutlaust orðalag spurninga og góða aðferðafræði sem skiptir sköpum svo að vel takist til. Viðfangsefni viðhorfskannana eru eins fjölbreytt og þau eru mörg, allt frá viðhorfi landsmanna til sértækra málefna í þjóðfélaginu að almennum spurningum um líðan og heilsu.

Meðal reglulegra viðhorfskannana Gallup eru:

Þjóðarpúls Gallup veitir upplýsingar um fylgi stjórnmálaflokka og stuðning við ríkisstjórn. Einnig birtast reglulega upplýsingar um skoðanir almennings á þeim málefnum sem ofarlega eru í umræðunni hverju sinni. Niðurstöður eru birtar a.m.k. mánaðarlega og geta stjórnmálaflokkar fengið nánari upplýsingar um fylgi allra flokka eftir kyni, aldri og kjördæmaskipan.

Traust til stofnana er mælt einu sinni á ári, sem partur af Þjóðarpúlsi Gallup. Þær stofnanir sem mældar hafa verið eru m.a. Þjóðkirkjan, Alþingi, Ríkissaksóknari, Lögreglan og Háskóli Íslands. Helstu niðurstöður eru birtar opinberlega. Einnig er hægt að fá frekari greiningar fyrir einstaka stofnanir og embætti sem gefa góða mynd af trausti hjá mismunandi þjóðfélagshópum.

Væntingavísitalan gefur til kynna framtíðarvæntingar fólks varðandi efnahagsmál, atvinnumál og væntar tekjur. Vísitalan er talin vera vegvísir um einkaneyslu og er mikilvægur þáttur í spám um efnahag þjóðfélagsins fram í tímann. Niðurstöður eru birtar mánaðarlega.

Samfélagsmælikvarðar endurspegla líðan og lífskjör íslensku þjóðarinnar út frá væntum heildartekjum, heilsufari og daglegri neyslu. Niðurstöður eru birtar mánaðarlega.

Þjónustukönnun sveitarfélaga endurspeglar viðhorf og ánægju íbúa með þjónustu og störf síns sveitarfélags. Niðurstöður eru birtar árlega.

Til viðbótar við ofangreindar kannanir býður Gallup mikið af sértækum mælingum sem henta upplýsingaþörf fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga.