Varpa ljósi á fjölmiðlaneyslu Íslendinga

Fjölmiðlamælingar Gallup eru mikilvæg endurgjöf fyrir miðlana sjálfa og nýtast við dagskrár- og efnisuppbyggingu. Einnig er mikilvægt fyrir auglýsendur að geta greint hverjir úr markhópnum sjá og heyra þær auglýsingar sem þeir birta í mismunandi miðlum.

Prentmiðlamælingar

Mælingar á dagblaðalestri fara fram með samfelldri símamælingu þar sem 30 svörum er safnað á dag yfir allt árið. Úrtakið í mælingunni samanstendur af íslendingum 12-80 ára sem búsettir eru um allt land. Meðallestur á tölublað er birtur mánaðarlega á vef Gallup. Ársfjórðungslega fá birtingaraðilar aðgang að lestrartölum sem hægt er að greina eftir breytum eins og kyni, aldri, búsetu, menntun og heimilistekjum svarenda.

Sjónvarps- og útvarpsmælingar

Frá árinu 2008 hefur Gallup mælt sjónvarpsáhorf og útvarpshlustun með rafrænum hætti fyrir ljósvakamiðla og birtingafyrirtæki. Í samstarfi við alþjóðlega rannsóknarfyrirtækið Kantar Media (áður TNS) notar Gallup mæliaðferð sem kallast PPM (portable people meter) til að mæla á hvað fólk horfir og hvað það hlustar á. PPM mælitækin greina hljóðmerki sem Gallup kemur fyrir í útsendingum sjónvarps- og útvarpsstöðvanna. Merkið er falið í útsendingunni og mannseyrað nemur það ekki. Í kjölfar ítarlegrar rannsóknar á ljósvakanotkun byggir Gallup upp og viðheldur hópi þátttakenda sem endurspeglar almenning í landinu m.t.t. ljósvakanotkunar. Í Fjölmiðlahópnum eru 500 manns á aldrinum 12-80 ára sem bera PPM-mælitækið á sér frá því þeir vakna á morgnana þar til þeir fara að sofa á kvöldin. PPM tækið skráir hvenær horft er eða hlustað á hverja stöð og eru gögn send til Gallup daglega. Rafrænar ljósvakamælingar gefa kost á samantekt á árangri auglýsingaherferða og þannig geta auglýsendur fengið staðfestingu á því hverjir sáu eða heyrðu auglýsingar úr herferðinni.

Netmælingar

Árið 2015 hóf Gallup samstarf við alþjóðlega netmælingafyrirtækið comScore. Í netmælingum Gallup eru mæld atriði eins og fjöldi notenda, innlita og flettinga á hvern mældan netmiðil. Gallup birtir vikulega topplista yfir notkun á mældum miðlum á heimasíðu sinni, topplistar.gallup.is. Fyrir hvern mældan netmiðil er sýndur fjöldi notenda, innlita og flettinga yfir viku, fyrir meðaldag, meðal virkan dag og meðal helgardag. Innlend umferð er aðgreind frá erlendri og mögulegt er að sjá myndræna þróun.

Helstu niðurstöður úr fjölmiðlamælingum Gallup má finna hér.