Samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Gallup hafa nokkrar breytingar orðið á fylgi flokka frá því í ágúst en þær áttu sér að mestu leyti stað fyrir stjórnarslit, þ.e. í fyrri hluta septembermánaðar. Á þeim tíma jókst fylgi við Vinstri græn og Bjarta framtíð á sama tíma og fylgi við Pírata minnkaði nokkuð. Á sama tíma minnkaði stuðningur við ríkisstjórnina um þrjú prósentustig.

Þegar fylgi flokka er borið saman, annars vegar fyrir og hins vegar eftir stjórnarslitin um miðjan mánuðinn, minnkar fylgi Viðreisnar en breyting á fylgi annarra flokka er ekki tölfræðilega marktæk. Fylgi Sjálfstæðisflokks er marktækt lægra nú en það var í ágúst.

Fylgi flokka sept2017

Rösklega 25% segjast myndu kjósa Vinstri græn færu kosningar til Alþingis fram í dag, liðlega 23% Sjálfstæðisflokkinn, rösklega 10% Pírata, rúmlega 10% Flokk fólksins, nær 10% Framsóknarflokkinn, ríflega 9% Samfylkinguna, tæplega 5% Bjarta framtíð og næstum 4% Viðreisn. Nær 4% nefna aðra flokka, þar af rúmlega 2% Miðflokkinn1 og um 1% Dögun.

Tæplega 7% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og næstum 6% svarenda segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag. Nær 88% gefa upp hvaða flokk þau ætla að kjósa og er þetta mun hærra hlutfall en verið hefur undanfarið. Hlutfallið er þó svipað því sem hefur verið í aðdraganda kosninga.

Fylgistölur eru reiknaðar út frá svörum við þremur spurningum:

  • „Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa?”
  • Þeir sem voru óákveðnir voru spurðir: „En hvaða flokkur eða listi yrði líklegast fyrir valinu”?
  • Þeir sem enn voru óákveðnir voru spurðir: „Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?”

Niðurstöður sem hér birtast um fylgi flokkanna á landsvísu eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 15. til 28. september 2017. Heildarúrtaksstærð var 4.092 og þátttökuhlutfall var 60,0%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,8-1,8%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

Nánari upplýsingar um Þjóðarpúls Gallup