Um 66% landsmanna eyddu páskafríinu heima hjá sér og voru eldri borgarar líklegastir til að halda sig heima þar sem um 80% þeirra sem eru 70 ára og eldri sögðust hafa verið heima yfir páskana. Á hinn bóginn sýndu yngri kynslóðir meiri ferðavilja innanlands, en um fjórðungur fólks á aldrinum 18–39 ára nýttu fríið til að ferðast innanlands.
Þrátt fyrir að flestir landsmenn hafi haldið sig innanlands, þá lögðu um 12% þjóðarinnar land undir fót og ferðuðust erlendis yfir páskana, sem jafngildir um 40.000 Íslendingum og því þéttsetin bílastæði á Leifsstöð ekki að undra.
Ferðalög út fyrir landsteinana voru hvað algengust meðal fólks á miðjum aldri þar sem bæði karlar og konur á aldrinum 40–59 ára voru líklegri en aðrir aldurshópar til að leggja land undir fót. Þá má einnig nefna að 16% af þeim sem búa á höfuðborgarsvæðinu eyddu fríinu erlendis.