Í dag er alþjóðadagur sjónvarps en dagurinn hefur verið haldinn 21. nóvember undanfarna áratugi. Nú þegar snjalltæki draga til sín athyglina í meira mæli en áður hefur það hvernig við horfum og upplifum sjónvarp breyst en staða miðilsins er enn gríðarsterk. Neytendur sjónvarpsefnis hafa mun meira val en áður hvar þeir horfa, á hvað þeir horfa og hvenær þeir horfa. Sjónvarpið hefur þróast frá því að vera bundið við stofuvegginn í að við tökum það með okkur í vasanum og flest erum við sítengd okkar veitum.
Sjónvarpið er ríkur þáttur í okkar daglegu tilveru, það fræðir okkur og upplýsir og þrátt fyrir ítrekaðar vangaveltur um hvað muni ganga að sjónvarpinu dauðu er fátt sem bendir þess að sá ótti raungerist á næstunni. Tölurnar tala sínu máli. Dagleg notkun á sjónvarpsefni hefur sjaldan verið meiri hérlendis. Sem dæmi má nefna að á hverju kvöldi horfa um 100 þúsund manns á sjónvarpsfréttir Sýnar og RÚV og um 75% þjóðarinnar horfir í hverri viku á innlendar sjónvarpsstöðvar í línulegri samkvæmt mælingum Gallup. Til viðbótar línulega áhorfinu bætast við rúmlega milljón spilanir af hliðrænu efni (VOD, tímaflakk o.s.frv.) á efnisveitum Sýnar og Símans.
Sjónvarpið hefur þannig þróast mikið frá tímum dagskrárþulanna yfir í að áhorfandinn stjórnar mikið til ferðinni en eitt hefur þó haldist tiltölulega óbreytt. Sjónvarpið er enn einn öflugasti miðillinn til að segja sögur, það fræðir og upplýsir, brúar bil kynslóða yfir samtíma viðburðum og sameinar okkur á tímum þar sem aldrei hefur verið jafn mikil samkeppni um athyglina. Því þrátt fyrir alla þróunina sýna mælingar enn að sjónvarp er sá miðill sem fólk treystir einna best, stólar á og þangað snúum við okkur fyrir upplýsingar um náttúruvá og heimviðburði, til að styðja okkar lið hvar sem er í heiminum eða bara til að ergja okkur enn eina ferðina á 16. sætinu.
Sjónvarpið skrásetur samtímann fyrir framtíðina og sýnir okkur fortíðina til að við skiljum hvaðan við komum og hvert við erum að fara. Það er ágætis áminning á alþjóðadegi sjónvarps.

