Í lok síðasta mánaðar boðaði stjórn Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva til atkvæðagreiðslu aðildarríkja söngvakeppninnar Eurovision um þátttöku Ísrael í henni. Atkvæðagreiðslan fer fram í byrjun nóvember og er boðuð í kjölfar þess að nokkur þátttökulönd hafa þrýst á sambandið að meina Ísrael þátttöku og einhver hafa tilkynnt að þau dragi sig annars úr keppni.
Forysta RÚV hefur gefið í skyn að þau muni ólíklega taka þátt í keppninni verði Ísrael með og að þau muni líklega greiða
atkvæði gegn þátttöku Ísrael en hefur ekki gefið afgerandi svör. Útvarpsstjórar norðurlandanna koma saman á næstu dögum og haft er eftir stjórnarformanni RÚV að ákvörðun verði að öllum líkindum tekin í lok mánaðar um hvort stofnunin greiði atkvæði með brottvísun Ísrael úr keppninni eða ekki.
Könnun Gallup sýnir að meirihluti þjóðarinnar er almennt hlynntur þátttöku Íslands í Eurovision en ekki ef Ísrael verður með, eða 58%. Ríflega fimmtungur er hlynntur þátttöku Íslands óháð þátttöku Ísrael. Nær 15% eru mótfallin þátttöku í keppninni óháð þátttöku Ísrael og 6% eru almennt hlynnt þátttöku en ekki ef Ísrael verður meinuð þátttaka.*1
Nánari upplýsingar og ítarlegri niðurstöður má finna hér
*1 Könnunin fór fram dagana 18. september - 2. október og stærstur hluti svaranna kom inn fyrstu dagana. Samband evrópskra sjónvarpsstöðva boðaði til atkvæðagreiðslunnar þann 25. september sl.