Þeim fjölgar mikið milli ára sem nýta sér gervigreind í störfum og leik. Helmingur landsmanna segist nota ChatGPT í dag sem er tvöföldun frá sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í Neyslu- og lífstílskönnun Gallup sem mælir breytingar í íslensku samfélagi m.t.t. neyslu, hegðunar og viðhorfs.
Ekki kemur á óvart að þau sem yngri eru séu komin lengra í að tileinka sér tæknina og þannig er hlutfallið sjö á móti tíu hjá þeim sem eru yngri en 50 ára. Ekki er munur á notkun á ChatGPT eftir kyni svarenda sem er mjög áhugaverð staðreynd í ljósi þess að í síðustu mælingu var notkun ChatGPT almennari hjá körlum 29% en konum 19%.
Með greiningu á markhópum í Neyslukönnun má m.a. sjá að viðskiptavinir Símans eru ólíklegri en viðskiptavinir annarra fjarskiptafyrirtækja til að nýta sér kosti ChatGPT og kjósendur Viðreisnar eru komnir lengst í gervigreindarvegferðinni meðan kjósendur Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Framsóknarflokksins reka lestina. Þá má einnig sjá að hánotendur á Instagram og TikTok eru líklegri til að nýta ChatGPT en þeir sem eru hánotendur á Facebook.
Hægt er að leita í Neyslu- og lífstílkönnun Gallup á gallup.is en aðgangur að gögnunum er seldur í áskrift.



