Útbreiðsla átakanna

Hátt í fjögur ár eru síðan Rússar gerðu innrás í Úkraínu og stendur hernaður þeirra þar enn yfir. Aðfaranótt 10. september síðastliðinn rufu rússneskir drónar pólska lofthelgi og einhverjir þeirra voru skotnir þar niður. Rúmri viku síðar flugu þrjár rússneskar herþotur inn í lofthelgi Eistlands þar sem þeim var snúið við af flugvélum bandamanna í NATO. Fáum dögum síðar var drónum flogið inn í lofthelgi Noregs og Danmerkur þó ekki liggi ljóst fyrir hvaðan þeir komu en samkvæmt yfir-lýsingu Norður-Atlantshafsráðsins hafa fleiri ríki orðið fyrir lofthelgibrotum af hálfu Rússa nýlega, þar á meðal Finnland, Litháen og Rúmenía.

Meira en sjö af hverjum tíu landsmönnum telja líklegt að hernaðaraðgerðir Rússlands í Úkraínu muni leiða til hernaðarátaka í öðrum löndum á meðan rúmlega einn af hverjum tíu telur það ólíklegt.*1 Svartsýni landsmanna þegar kemur að útbreiðslu átakanna er talsvert meiri en í fyrri mælingum. Rétt eftir innrás Rússa í Úkraínu töldu rúmlega sex af hverjum tíu Íslendingum líklegt að átökin breiddust út en hlutfallið hafði lækkað niður í rúmlega helming um mánuði síðar.

Ukraina_Atok_utbreidsla_sept25

Áhrif á Íslendinga

Ríflega fjórir af hverjum tíu landsmönnum telja að innrás Rússlands í Úkraínu muni hafa mikil áhrif á líf sitt. Rúmlega fjórðungur telur aftur á móti að hún muni hafa lítil eða engin áhrif á líf sitt. Þetta eru svipuð hlutföll og í síðustu mælingum.

Ukraina_Ahrif_a_lif_thitt

Rösklega helmingur Íslendinga segist finna fyrir óöryggi eða ótta vegna ástands og atburða líðandi stundar tengdum innrás Rússa í Úkraínu á meðan tæplega fjórðungur segist ekki gera það. Þetta eru svipuð hlutföll og stuttu eftir innrás Rússa í Úkraínu.

Ukraina_Oryggi_otti_sept2025

*1Könnunin var gerð 11.-28. september og meirihluti svaranna kom inn fyrstu daga könnunarinnar.