Hlaðvörp eru áberandi í umræðunni og því áhugavert að varpa ljósi á það hvaða markhópar hlusta á hvaða hlaðvörp. Um þriðjungur þjóðarinnar hlustar einhvern tímann á íslensk hlaðvörp en hlustunin dreifist niður á óteljandi hlaðvarpsþætti eftir áhugasviðum og ekki mikil hlustun á hvert og eitt hlaðvarp í samanburði við notkun á öðrum miðlum.
Það hlaðvarp sem ber höfuð og herðar yfir önnur er hlaðvarpið Í ljósi sögunnar með Veru Illugadóttur sem tæplega 2 af hverjum 10 landsmanna hlusta á í meðal viku. Myndin hér að ofan sýnir vikudekkun mismunandi hlaðvarpa þar sem stærri kúla merkir meiri hlustun og staðsetning gefur til kynna kyn og aldur hlustenda. Þau hlaðvörp sem staðsett eru vinstra megin á myndinni höfða frekar til kvenna og þau sem eru hægra megin frekar til karla. Þau sem staðsett eru neðar á myndinni höfða frekar til yngri hlustenda meðan þau sem eru ofar höfða til eldri aldurshópa.
Þessi mæling á hlaðvörpum er úr Neyslu- og lífstílskönnun Gallup þar sem svarendur svara til um áhugamál, lífstíl og hegðunarmynstur og býður þannig upp á markhópagreiningar. Hægt er að leita í Neyslu- og lífstílkönnun Gallup á gallup.is en aðgangur að gagnasettinu er seldur í áskrift.