Traust almennings til nokkurra opinberra stofnana samfélagsins hefur verið kannað hjá Gallup um árabil og birt opinberlega undir merkjum Þjóðarpúls Gallup. Elstu mælingar Þjóðarpúlsins á trausti til stofnana eru frá árinu 1993. Listinn yfir þær stofnanir sem eru mældar í Þjóðarpúlsi Gallup er langt frá því að vera tæmandi yfir opinberar stofnanir samfélagsins. Forsvarsmönnum annarra stofnana býðst að kaupa mælingu með samanburði til að sjá hvar þær standa. Í gegnum tíðina hafa stofnanir sem eru ekki hluti af Þjóðarpúlsi Gallup mælst með bæði meira og minna traust en þær stofnanir sem niðurstöður eru sýndar fyrir hér.

Helstu breytingar

Breytingar hafa orðið á trausti almennings til nokkurra stofnana samfélagsins frá því í fyrra og í flestum tilvikum minnkar traust landsmanna. Traust til Seðlabankans minnkar mest, traust til dómskerfisins, heilbrigðiskerfisins og forsetaembættisins minnkar einnig en traust til lögreglunnar eykst.

Hlutfall sem ber mikið traust til stofnana í febrúar 2022

Ítarlegar niðurstöður

Sú stofnun sem flestir bera mikið traust til er eins og hingað til Landhelgisgæslan, en 87% bera mikið traust til hennar, sem er hækkun um sex prósentustig frá því í fyrra.

Hástökkvari ársins er lögreglan en 78% bera mikið traust til hennar, sem er hækkun um sex prósentustig frá því í fyrra.

Á hæla lögreglunnar kemur Háskóli Íslands en 77% bera mikið traust til hans.

Traust til embættis forseta Íslands minnkar um sjö prósentustig frá í fyrra og bera nú 73% landsmanna mikið traust til þess. Það er lægsta hlutfall sem hefur mælst síðan Guðni Th. Tók við embætti en traust til embættisins jóks mikið þegar hann tók fyrst við því.

Traust til heilbrigðiskerfisins minnkar einnig frá síðasta ári en þá hafði það aukist mikið frá árinu á undan og var það hæsta síðan mælingar hófust fyrir nær þremur áratugum. Nú ber 71% mikið traust til heilbrigðiskerfisins og er það hækkun um átta prósentustig. Traustið hefur þó ekki mælst jafn mikið í áratug ef frá talið árið í fyrra.

Traust til Seðlabankans minnkar mest en það hafði hækkað mjög mikið árin tvö á undan þegar hlutfall þeirra sem bera mikið traust til bankans fór úr 31% í 62%, en nú er hlutfallið 52%. Þrátt fyrir lækkun um tíu prósentustig er þetta næst hæsta mæling á trausti til Seðlabankans síðan mælingar hófust eftir bankahrun.

Svipað hlutfall ber mikið traust til umboðsmanns Alþingis, eða 51%, nær 49% bera mikið traust til ríkissáttasemjara og 44% til ríkissaksóknara.

Fjögur af hverjum tíu bera mikið traust til dómskerfisins. Það er lækkun frá í fyrra en talsvert flökt hefur verið á trausti til dómskerfisins síðust ár.

Traust til Alþingis hefur ekki mælst meira síðan fyrir bankahrun en 36% bera nú mikið traust til þess. Eftir hrun fór hlutfall þeirra sem treystu þinginu úr 42% í 13% en það hefur almennt verið að aukast síðan. Hafa má í huga að traustið hefur almennt mælst í hærri kantinum rétt fyrir kosningar en þetta er fyrsta mæling eftir síðustu alþingiskosningar.

Traust til bankakerfisins hefur sömuleiðis almennt verið að aukast jafnt og þétt síðan í bankahruni, þegar hlutfall þeirra sem báru mikið traust til bankakerfisins fór úr 40% í 4%, en hlutfall þeirra sem bera mikið traust til bankakerfisins er nú 23%.

Um 21% ber mikið traust til borgarstjórnar Reykjavíkur.

Spurt var:

  • Hversu mikið eða lítið traust berð þú til…? – Stofnanir og embætti birtust í tilviljunarkenndri röð.

Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 3.- til 13. Febrúar 2022. Heildarúrtaksstærð var 1.637 og þátttökuhlutfall var 51,3%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

Sjá nánar upplýsingar um mælingar á trausti til stofnana.