Vinnustaðir standa frammi fyrir æ hraðari breytingum. Þróun í upplýsingatækni, sjálfvirknivæðingin, breytt gildismat nýrra kynslóða, aukin atvinnutækifæri og ýmsar samfélagslegar breytingar þýða að vinnustaðir þurfa að mæta margvíslegum áskorunum. Ef vinnustaðir ætla að ná árangri við þessar aðstæður skiptir sköpum að þeir skapi starfsfólki eftirsóknarvert starfsumhverfi, til að laða að, virkja og halda í gott starfsfólk.

En hvernig sköpum við eftirsóknarverða vinnustaði?

Ein áhrifaríkasta leiðin til árangurs er að skapa starfsfólki aðstæður og tækifæri til að efla og nýta styrkleika sína. Okkur er tamt að einblína um of á takmarkanir, eigin veikleika og annarra. En staðreyndin er sú að við erum öll ólík; það er breytilegt hvað hvetur okkur áfram og veitir okkur ánægju, við nálgumst verkefni á ólíkan hátt og förum ólíkar leiðir að sömu markmiðum (Gallup, 2008). Í stað þess að steypa öllum í sama mót ættu vinnustaðir að leggja kapp á að skapa styrkleikamiðað vinnuumhverfi. Umhverfi þar sem fjölbreytni er ekki einungis samþykkt, heldur nýtt á markvissan hátt.

Erum við að nýta styrkleika okkar?

Í könnun sem Gallup gerði meðal starfandi fólks í ágúst síðastliðnum sögðust 73% svarenda hafa tækifæri til að nýta styrkleika sína í starfi, en tæp 10% ekki. Lítill munur var á tækifærum eftir atvinnugeirum, konur töldu sig almennt frekar nýta styrkleika sína í starfi en karlar og fólk 35 ára og eldra fannst það hafa ríkari tækifæri til þess en yngra starfsfólk. Líklega þekkir fólk betur styrkleika sína eftir því sem það eldist og hefur stundum möguleika á að laga starf sitt að hæfileikum sínum, en slíkt gerir starfsfólki kleift að nýta styrkleika sína betur en ella.

Gallup hefur gert vinnustaðagreiningar fyrir íslenska vinnustaði í ríflega 20 ár og býr yfir gagnabanka með um 150 þúsund svörum starfsmanna. Í greiningunum er meðal annars lagt mat á tækifæri fólks til að nýta styrkleika sína í starfi með staðhæfingunni Ég hef tækifæri til að gera það sem ég kann best á hverjum degi. Áhersla á nýtingu styrkleika hefur aukist frá upphafi mælinga, enda stjórnun orðin fagmannlegri og margfalt fleiri ljúka nú námi á sviði stjórnunar og rekstrar en fyrir tveimur áratugum (Cranet, 2012; hagstofa.is). Í kjölfar efnahagshrunins 2008 minnkuðu möguleikar fólks til að nýta styrkleika sína í starfi lítillega, enda drógu mörg fyrirtæki saman í mannauðstengdum málum á þeim tíma. Eftir 2012 hefur þróunin hins vegar verið í jákvæð.

Mynd: Ég hef tækifæri til að gera það sem ég kann best á hverjum degi

Ávinningur styrkleikamiðaðs vinnuumhverfis

Gallup í Bandaríkjunum kannaði áhrif styrkleikamiðaðrar nálgunar á vinnustöðum með allsherjargreiningu (e. meta-analysis) sem sýndi að nálgunin skilar vinnustöðum margvíslegum ávinningi, meðal annars í formi hagnaðar, skilvirkni, betri þjónustu, minni starfsmannaveltu og færri fjarvistum (Gallup, 2016).

Þegar skoðuð eru gögn Gallup af íslenskum vinnumarkaði sjáum við ekki síður áhrif. Starfsfólk sem nýtir styrkleika sína í starfi er til að mynda mun líklegra til að mæla með vinnustað sínum við aðra, er ánægðara í starfi og upplifir síður streitu. Aðeins 17% starfsfólks sem nýtir styrkleika sína segist líklegt til að leita sér að öðru starfi, samanborið við 66% þeirra sem ekki nýta styrkleika sína. Þessi munur er áhugaverður í ljósi aukinna atvinnutækifæra og mikilvægi þess að fyrirtæki skapi samkeppnishæft vinnuumhverfi.

Mynd: Hve líklegt er að viðkomandi leiti að öðru starfi á næsu 12 mánuðum

Um 1% íslensku þjóðarinnar hefur tekið styrkleikamat Gallup (CliftonStrengths)

Mikilvægt er að vinnustaðir leggi kapp við að mæta breyttum áskorunum. Aldamótakynslóðin svokallaða kallar til að mynda í meiri mæli eftir að þróast í starfi og nýta styrkleika sína en fyrri kynslóðir. Nálgun Gallup varðandi eflingu og nýtingu styrkleika er ein sú þekktasta á heimsvísu. Nú hafa rúmlega 19 milljónir manna tekið styrkleikamat Gallup og þar af um 1% íslensku þjóðarinnar. Eins hafa um 90% af Fortune 500 fyrirtækjum nýtt styrkleikamat Gallup í starfsemi sinni (Gallup, 2008).

Gallup á Íslandi hefur unnið með fjölda íslenskra fyrirtækja að því að innleiða styrkleikamiðað vinnuumhverfi. Styrkleikamat Gallup gefur okkur tungutak til að afmarka, læra um, ræða og miðla þekkingu um styrkleika okkar. Bæði til að efla eigin sjálfsþekkingu og þekkingu okkar á styrkleikum samstarfsfólks. Markviss nýting styrkleika skilar árangri, því framúrskarandi árangur byggir á því að fólk þekki styrkleika sína og hafi tækifæri til að nýta þá – þannig náum við fram því besta hjá hverjum og einum.

Heimildir

Cranet rannsóknin (2012). Staða og þróun mannauðsstjórnunar á Íslandi. Rannsóknarmiðstöð í mannauðsstjórnun.

Gallup (2016). The Relationship Between Strengths-Based Employee Development and Organizational Outcomes, Gallup 2015 Strengths Meta-Analysis. The Gallup Organization. Höfundar: Jim Asplund, M.A., Gallup; James K. Harter, Ph.d., GALLUP; Sangeeta Agrawal, M.S., Gallup; Stephanie K. Plowman, M.A., Gallup.

Gallup (2008). Strengths based leadership. The Gallup Organization. Höfundar: Tom Rath; Barry Conchie.

Hagstofa.is e.d.