Íslensk heimili fóru ekki varhluta af efnahagshruninu en því fylgdi mikil kjaraskerðing fyrir almenning. Með falli krónunnar jókst verðbólga sem aftur rýrði kaupmátt launa. Með aukinni verðbólgu hækkuðu verðtryggðar skuldir og þar með greiðslubyrði heimilanna vegna húsnæðislána. Fjölmörg heimili voru með skuldir í erlendri mynt sem hækkuðu skyndilega vegna falls krónunnar. Atvinnuleysi jókst og vinnustundum fækkaði. Gallup fylgdist grannt með stöðu mála og er áhugavert að rýna í niðurstöður spurninga sem lagðar hafa verið fyrir almenning um fjárhagsstöðu heimila allt frá aðdraganda hrunsins til dagsins í dag.

Á árunum 2005 – 2008 sögðust u.þ.b. 1 af hverjum 10 safna skuldum eða nota sparifé til að ná endum saman á meðan 6 af hverjum 10 söfnuðu ýmist svolitlu eða talsverðu sparifé. Frá árinu 2009 fór hins vegar að halla verulega undan fæti og má segja að á árinu 2011 hafi botninum verið náð þegar 11% sögðust safna skuldum, 16% notuðu sparifé til ná endum saman og 36% náðu endum saman með naumindum. Hins vegar gátu einungis 36% safnað sparifé. Frá 2014 hefur fjárhagur heimila landsins aftur á móti vænkast jafnt og þétt og nú árið 2018 segjast 4% safna skuldum, 6% nota sparifé til að ná endum saman, 27% ná endum saman með naumindum og 63% ná að safna sparifé.

Fjárhagur heimila_sparifé 2005-2018

Athyglisvert er að skoða mun á hlutfalli þeirra sem geta safnað sparifé eftir því hvort fólk býr í eigin húsnæði eða í leiguhúsnæði. Fyrir hrun var staða þeirra sem bjuggu í eigin húsnæði töluvert betri en leigjenda en eftir efnahagshrunið dró verulega saman með hópunum og var hlutfall húsnæðiseigenda og leigjenda sem gátu safnað sparifé svipað. Árið 2014 tóku leiðir að skilja á ný og í dag er hlutfall leigjenda sem ná að safna sparifé töluvert lægra en þeirra sem búa í eigin húsnæði. Þeir sem hafa meiri menntun og þeir sem hafa hærri fjölskyldutekjur eru líklegri til að geta safnað sparifé en þeir sem hafa minni menntun að baki og þeir sem hafa lægri tekjur.

Annað sjónarhorn á fjárhagsstöðu heimilanna er að bera saman skuldir vegna húsnæðis í samanburði við markaðsverð, meðal þeirra sem búa í eigin húsnæði. Árið 2009 sögðu 16% skuldir heimilisins vegna húsnæðis vera hærri en markaðsverð þess og jafnmargir sögðu skuldir vegna húsnæðisins álíka miklar og markaðsverð þess. Ríflega helmingur sagði skuldir heimilisins lægri en markaðsverð húsnæðis. Í dag er staðan sú að þeim hefur fækkað töluvert sem segja skuldir hærri en markaðsverð og er hlutfall þeirra nú ríflega 3%. Rúm 9% segja skuldir álíka miklar og markaðsverð húsnæðisins en 68% segja að skuldir heimilisins vegna húsnæðis séu lægri en markaðsverð þess. Hlutfall þeirra sem segjast ekki skulda vegna húsnæðis hefur hins vegar lítið breyst frá 2009.

Fjárhagur heimila_hlutfall skulda af markaðsverði 2009-2018

Út frá þessum niðurstöðum er því óhætt að fullyrða að fjárhagsstaða íslenskra heimila hefur á heildina litið batnað frá efnahagshruni. En má greina einhverja breytingu á viðhorfi og hegðun Íslendinga þegar kemur að eigin fjármálum? Íslendingar urðu varkárari með skuldsetningar í kjölfar hrunsins þrátt fyrir að þær hafi verið að aukast lítillega á ný. Jafnframt leggjum við í auknum mæli fé til hliðar til sparnaðar. Til að varpa frekara ljósi á hvort viðhorf okkar í fjármálum hafi breyst má rýna í afstöðu almennings til fullyrðingarinnar „Kaup á verðbréfum eða hlutabréfum eru of áhættusöm fjárfesting fyrir mig“.

Fjárhagur heimila_kaup á verðbréfum og hlutabréfum 2005-2018

Á árunum 2005-2007 var tæplega helmingur Íslendinga ósammála fullyrðingunni og hefur þannig metið það sem svo að kaup á verðbréfum og hlutabréfum væri ekki of áhættusöm fjárfesting fyrir sig. Frá 2008 dró hratt úr áhættusækni hvað fjárfestingar varðar en frá 2014 hefur þeim hægt og bítandi fjölgað sem telja kaup á verðbréfum og hlutabréfum ekki vera of áhættusama fjárfestingu. Sumarið 2018 sögðu 28% kaup á verðbréfum og hlutabréfum ekki vera of áhættusama fjárfestingu fyrir sig sem er enn töluvert fjarri stöðunni eins og hún var á árunum 2005-2007.

En hvaða augum lítur almenningur framtíðina þegar kemur að fjármálum heimilisins? Samfélagsmælikvarði Gallup byggir m.a. á spurningu um hvort heildartekjur heimilisins muni aukast, haldast óbreyttar eða minnka á næstu 6 mánuðum. Í ágúst 2018 taldi fimmtungur að tekjurnar myndu minnka á næstu 6 mánuðum, tveir af hverju þremur töldu þær verða óbreyttar en naumlega 14% töldu að þær myndu aukast. Fleiri telja því að heildartekjur heimilisins muni minnka á næstu 6 mánuðum en hafa gert um nokkra hríð.

Fjárhagur heimila_samfélagsmælikvarði

Af öllu ofansögðu má því vera ljóst að miklar breytingar hafa átt sér stað á fjárhagsstöðu íslenskra heimila á undanförnum áratug. Það verður forvitnilegt að fylgjast með þróuninni á næstu mánuðum en reynslan hefur sýnt okkur að staðan getur breyst hratt.