Fyrir um viku síðan voru sóttvarnarreglur hertar vegna aukins fjölda COVID-19 smita. Meðal annars var viðmið um hámarksfjölda einstaklinga sem koma saman lækkað og viðmið um fjarlægð milli einstaklinga sem eru ekki í nánum tengslum aukið á höfuðborgarsvæðinu.

Fer fólk eftir fjarlægðartakmörkunum?

Samkvæmt mati landsmanna fór almenningur frekar eftir fjarlægðartakmörkunum í síðustu viku, eftir að reglurnar voru hertar, en vikuna á undan, áður en þær voru hertar. Í vikunni áður en reglurnar voru hertar sagði innan við þriðjungur landsmanna, að í aðstæðum þar sem það ætti við fyndist honum almenningur fara oftast eða alltaf eftir viðmiðum yfirvalda um fjarlægðartakmarkanir milli einstaklinga sem eru ekki í nánum tengslum, og nær 28% fannst almenningur sjaldan eða aldrei fara eftir viðmiðunum. Í síðustu viku fannst hins vegar nær 42% almenningur oftast eða alltaf fara eftir viðmiðunum en nær 17% sjaldan eða aldrei.

Fer almenningur eftir fjarlægðartakmörkunum vegna Covid-19

Það er athyglisvert að þegar fólk svarar um sjálft sig er allt annað er uppi á teningnum, mun fleiri telja sjálfa sig fara eftir viðmiðunum og enginn munur mælist milli vikna. Um 86% telja sjálf sig oftast eða alltaf fara eftir viðmiðum um fjarlægðartakmarkanir þegar það á við, og þar af telur hátt í fjórðungur sig alltaf fara eftir þeim. Innan við 3% telja sig sjaldan eða aldrei fara eftir þeim.

Ferð þú sjálfur eftir fjarlægðartakmörkunum vegna Covid 19

Hugsanleg skýring á þessu misræmi er sú að fólk taki meira eftir þeim sem fara ekki eftir viðmiðunum en hinum sem gera það, en ekki er útilokað að við tökum ekki alltaf eftir því þegar við förum ekki eftir þeim sjálf.

Veit fólk hvaða reglur eru í gildi?

Fjöldatakmörk:Áður en reglurnar voru hertar í byrjun október miðaðist takmörkun á fjölda einstaklinga sem komu saman við 200 manns (með ákveðnum undanþágum). Þegar landsmenn voru spurðir hvort þeir teldu að viðmiðið væri 100 eða 200 manns voru aðeins tæplega 39% með það á hreinu að það væri 200 manns en ríflega fjórðungur til viðbótar taldi að viðmiðið væri 200 manns. Næstum 36% töldu hins vegar eða þóttust vita að viðmiðið væri 100 manns. Mikil breyting varð á vitneskju landsmanna eftir að reglurnar voru hertar og viðmiðið lækkað í 20 manns (með ákveðnum undanþágum), en eftir það vissu eða töldu nær 98% landsmanna að viðmiðið væri 20 manns þegar þeir voru spurðir hvort þeir teldu að miðað væri við 20, 100 eða 200 manns.

Vitneskja um fjöldatakmarkanir vegna Covid 19

Fjarlægðarmörk:Áður en reglurnar voru hertar var á Íslandi viðmið um 1 metra fjarlægð milli einstaklinga sem voru ekki í nánum tengslum. Þegar landsmenn voru spurðir hvort þeir teldu að viðmiðið væri 1 eða 2 metrar vissu tæplega tveir af hverjum þremur að það væri 1 metri og alls rúmlega átta af hverjum tíu vissu eða héldu það. Hátt í tveir af hverjum tíu töldu hins vegar að í gildi væri 2 metra viðmið. Í byrjun október voru reglurnar hertar á höfuðborgarsvæðinu, viðmiðið þar varð 2 metrar og eftir það jókst vitneskja um reglurnar á höfuðborgarsvæðinu. Rúmlega níu af hverjum tíu höfuðborgarbúum vita eða telja að þeirra viðmið sé 2 metrar, en þekking þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins á reglum innan þess er aðeins minni, þar sem nær tveir af hverjum tíu þeirra telja viðmiðið á höfuðborgarsvæðinu vera 1 metra. Þekking á viðmiðum utan höfuðborgarsvæðisins virðist hins vegar vera á reiki. Aðeins rúmlega 35% þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins vita að þar er 1 metra viðmið og ríflega fjórðungur til viðbótar telur að það sé þannig. Nær fjórir af hverjum tíu sem búa utan höfuðborgarsvæðisins telja hins vegar að um þá gildi 2 metra viðmið, og þar af segist ríflega fjórðungur vita að það sé þannig. Þekking höfuðborgarbúa á viðmiðum utan höfuðborgarsvæðisins er enn minni, en meira en helmingur þeirra telur að viðmiðið þar sé 2 metrar.

Þekking á fjarlægðarviðmiðum vegna Covid 19 eftir landsvæðum

Spurt var báðar vikur:

  • Í aðstæðum þar sem það á við, hversu oft finnst þér almenningur fara eftir viðmiðum yfirvalda, um fjarlægðartakmarkanir milli einstaklinga sem eru ekki í nánum tengslum?
  • Í aðstæðum þar sem það á við, hversu oft ferð þú sjálf(ur) almennt eftir viðmiðum yfirvalda um fjarlægðartakmarkanir milli einstaklinga sem eru ekki í nánum tengslum?

Spurt var fyrri viku:

  • Hvort telur þú að núna sé í gildi á Íslandi viðmið um 1 eða 2 metra fjarlægð milli einstaklinga sem eru ekki í nánum tengslum?
  • Hvort telur þú að takmörkun á fjölda einstaklinga sem koma saman miðist núna við 100 eða 200 manns (með ákveðnum undanþágum)?

Spurt var seinni viku:

  • Hvort telur þú að núna sé í gildi á höfuðborgarsvæðinu viðmið um 1 eða 2 metra fjarlægð milli einstaklinga sem eru ekki í nánum tengslum?
  • Hvort telur þú að núna sé í gildi utan höfuðborgarsvæðisins viðmið um 1 eða 2 metra fjarlægð milli einstaklinga sem eru ekki í nánum tengslum?
  • Hvort telur þú að takmörkun á fjölda einstaklinga sem koma saman miðist núna við 20, 100 eða 200 manns (með ákveðnum undanþágum)?

Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem gerð var dagana 30. september—14. október 2020. Heildarúrtaksstærð var 3.155 Íslendingar 18 ára og eldri og þátttökuhlutfall var 55%. Einstaklingar voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

Nánari upplýsingar um Þjóðarpúls Gallup