Níu af hverjum tíu Íslendingum segja líklegt að þeir myndu þiggja bólusetningu gegn COVID-19 þegar byrjað verður að bjóða upp á hana. Tæplega 6% segja það ólíklegt og rúmlega 4% segja það hvorki líklegt né ólíklegt.

Hversu líklegt eða ólíklegt er að ú þiggir bólusetningu gegn COVID-19 þegar byrjað verður að bjóða upp á hana?

Rétt innan við helmingur landsmanna segir öruggt að hann þægi bólusetningu, nær þrír af hverjum tíu segja það mjög líklegt og rúmlega 12% segja það frekar líklegt. Innan við 3% segja öruggt að þau myndu ekki þiggja bólusetningu, rúmlega 1% segir það mjög ólíklegt og tæplega 2% segja það frekar ólíklegt.

Alþjóðleg könnun rannsóknarfyrirtækisins Ipsos, sem gerð var nýlega í 27 löndum víðs vegar um heiminn, bendir til þess að almennt myndu um þrír af hverjum fjórum þiggja bólusetningu. Þó spurning og svarmöguleikar séu ekki nákvæmlega eins milli kannana virðast Íslendingar vera meðal þeirra þjóða sem eru líklegastar til að þiggja bólusetningu. Af þeim þjóðum sem alþjóðlega könnunin var lögð fyrir eru það aðeins Kínverjar sem virðast líklegri en Íslendingar til að þiggja bólusetningu.

Marktækur munur var á svörum fólks eftir því hvaða flokk það kysi til Alþingis, en þeir sem kysu Vinstri græn eru líklegastir til að þiggja bólusetningu.

Líkur á að fólki þiggi bólusetningu gegn Covid-19, greint eftir hvaða flokk eða lista fólk myndi kjósa til Alþingis

Af þeim sem segja ekki líklegt að þeir myndu þiggja bólusetningu þegar byrjað verður að bjóða upp á hana segja flestir ástæðuna vera þá að þeir vilji bíða eftir að það verði komin meiri reynsla á bólusetninguna og mögulegar aukaverkanir hennar, eða átta af hverjum tíu, en tæplega 8% segjast vera almennt á móti bólusetningum. Ríflega 2% segjast þegar hafa greinst með sjúkdóminn eða mælst með mótefni gegn veirunni og tæplega einn af hverjum tíu nefnir aðrar ástæður.

Nánar má lesa um niðurstöður könnunar Ipsos hér: https://www.ipsos.com/ipsos-mori/en-uk/three-four-adults-globallysay-they-would-get-vaccine-covid-19

Spurt var:

  • Hversu líklegt eða ólíklegt er að þú þiggir bólusetningu gegn COVID-19 þegar byrjað verður að bjóða upp á hana?
  • Hvers vegna er ekki líklegra að þú þiggir bólusetningu þegar byrjað verður að bjóða upp á hana?

Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 3. til 10. september 2020. Heildarúrtaksstærð var 1.591 og þátttökuhlutfall var 54,2%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

Nánari upplýsingar um Þjóðarpúls Gallup