Fjárhagur heimila landsins hefur verið að vænkast jafnt og þétt eftir fall íslensku bankanna fyrir um átta árum, og vænkast enn samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup. Þeim fækkar sem ná ekki endum saman. Liðlega 4% landsmanna safna skuldum, ríflega 6% nota sparifé til að ná endum saman, endar ná saman hjá nær 34%, tæplega 45% geta safnað svolitlu sparifé og 11% geta safnað talsverðu sparifé.

Fjárhagur heimilianna mynd1

Fjárhagur karla er almennt betri en fjárhagur kvenna. Hátt í 13% kvenna nær ekki endum saman á móti rúmlega 8% karla og um helmingur kvenna nær að safna sparifé á móti nær 61% karla. Þeir sem hafa lokið framhalds– eða háskólaprófi og þeir sem hafa hærri fjölskyldutekjur eru líklegri til að geta safnað sparifé en þeir sem hafa minni menntun að baki og þeir sem hafa lægri tekjur. Loks eru tengsl milli fjárhags og þess hvar fólk stendur í stjórnmálum. Þeir sem kysu Sjálfstæðisflokkinn ef kosið yrði til Alþingis í dag eru líklegri til að standa vel fjárhagslega en þeir sem kysu aðra flokka. Þeir sem styðja ríkisstjórnina eru einnig líklegri til að ná að safna sparifé en þeir sem styðja hana ekki.

Fjárhagur heimilanna greining

Fátækt á Íslandi

Um þrír af hverjum tíu segja einhvern í fjölskyldu sinni búa við fátækt en fjölskylda var skilgreind bæði sem allra nánasta fjölskylda og nánir ættingjar eins og frændur og frænkur. Þetta er lægra hlutfall en í fyrra þegar 35% sögðu fjölskyldumeðlim búa við fátækt en þá hafði hlutfallið einnig lækkað frá því árinu á undan þegar 41% sagði fjölskyldumeðlim búa við fátækt.

Í samræmi við þetta hækkar hlutfall þeirra sem segja að fjölskyldumeðlimur þeirra hafi einhvern tíma búið við fátækt en hátt í 38% segja fjölskyldumeðlim hafa gert það.

Fátækt mynd 1

Konur eru líklegri en karlar til að segja einhvern í fjölskyldu sinni búa við fátækt en hægt er að ímynda sér að það gæti stafað af því að þær séu líklegri til að fá vitneskju um það. Þeir sem styðja ekki ríkisstjórnina eru líklegri til að segja fjölskyldumeðlim búa við fátækt en þeir sem styðja ríkisstjórnina.

Fátækt greining

Spurt var:

  • Ef þú hugsar um fjölskyldu þína, bæði þína allra nánustu fjölskyldu og svo nána ættingja eins og frænkur og frændur, telur þú að einhver í fjölskyldu þinni búi nú við fátækt?
  • En veist þú til þess að einhver í fjölskyldu þinni hafi einhvern tíma búið við fátækt?
  • Hver af eftirtöldum fullyrðingum á best við um fjárhag heimilisins? Við söfnum skuldum, við notum sparifé til að ná endum saman, endar ná saman með naumindum, við getum safnað svolitlu sparifé eða við getum safnað talsverðu sparifé.

Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem gerð var dagana 16. til 26. febrúar 2017. Heildarúrtaksstærð var 1.412 og þátttökuhlutfall var 58,9%. Einstaklingar voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

Nánari upplýsingar um Þjóðarpúls Gallup