Ákvörðun matvælaráðherra

Nær 43% landsmanna eru óánægð með ákvörðun matvælaráðherra um að leyfa hvalveiðar á ný með hertum skilyrðum, sbr. nýja reglugerð um veiðar á langreyðum, á meðan 35% eru ánægð með hana. Um 23% eru hvorki ánægð né óánægð með ákvörðunina.

Niðurstöðurnar ríma við niðurstöður könnunar sem gerð var í sumar um viðhorf landsmanna til þeirrar ákvörðunar ráðherra að stöðva veiðar á langreyðum til 1. september. Um 42% voru ánægð með þá ákvörðun á sínum tíma en 39% óánægð.

hvalv_mynd01_v01.PNG

Karlar eru ánægðari en konur með ákvörðun matvælaráðherra um að leyfa hvalveiðar á ný með hertum skilyrðum. Fólk er líklegra til að vera ánægðara með ákvörðunina eftir því sem það er eldra. Íbúar landsbyggðarinnar eru ánægðari með ákvörðunina en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Fólk sem hefur lokið háskólaprófi er frekar óánægt með ákvörðunina en fólk sem hefur minni menntun.

Þau sem kysu Miðflokkinn ef kosið yrði til Alþingis í dag eru líklegust til að vera ánægð með ákvörðunina og þar á eftir þau sem kysu Sjálfstæðisflokkinn. Þau sem kysu Pírata eru líklegust til að vera óánægð með ákvörðunina.

Þau sem eru almennt hlynnt því að Íslendingar stundi hvalveiðar eru mun ánægðari með ákvörðun ráðherra en þau sem eru almennt andvíg því.

hvalv_mynd02_v01.PNG

Viðhorf til hvalveiða

Nær 48% landsmanna eru almennt andvíg því að Íslendingar stundi hvalveiðar á meðan 32% eru hlynnt því. Rúmlega fimmtungur er hvorki hlynntur né andvígur því.

hvalv_mynd03_v01.PNG

Karlar eru hlynntari því en konur að Íslendingar stundi hvalveiðar og fólk er hlynntara því eftir því sem það er eldra. Íbúar landsbyggðarinnar eru hlynntari því en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Fólk sem hefur lokið háskólaprófi er frekar andvígt því en fólk sem hefur minni menntun.

Þau sem kysu Miðflokkinn ef kosið yrði til Alþingis í dag eru líklegri en þau sem kysu aðra flokka til að vera hlynnt því að Íslendingar stundi hvalveiðar. Þau sem kysu Pírata eru hins vegar líklegri til að vera andvíg því en þau sem kysu aðra flokka.

hvalv_mynd04_v01.PNG

Spurt var:

  • Hversu ánægð(ur) eða óánægð(ur) ert þú með ákvörðun matvælaráðherra um að leyfa hvalveiðar á ný með hertum skilyrðum, sbr. nýja reglugerð um veiðar á langreyðum?
  • Ert þú almennt hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að Íslendingar stundi hvalveiðar?

Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 1. til 10. september 2023. Heildarúrtaksstærð var 1.697 og þátttökuhlutfall var 50,0%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

Notkun á efni Þjóðarpúls Gallup og tilvitnun í það er heimil svo lengi sem heimilda er getið.

Útgefið af: Gallup - Lynghálsi 4, 110 Reykjavík. Sími: 540 1200. Netfang: sigrun.drifa@gallup.is.

Umsjón með útgáfu: Sigrún Drífa Jónsdóttir.

Ábyrgðarmaður: Jóna Karen Sverrisdóttir © Íslenskar markaðsrannsóknir 1993. © Gallup á Íslandi 2015. Allur réttur áskilinn.