Almennt voru niðurstöður helstu viðhorfskannana sem gerðar voru rétt fyrir nýafstaðnar alþingiskosningar nokkuð nærri úrslitum kosninganna. Þegar nýjasta kosningakönnun Gallup sem birt var 24. september er borin saman við niðurstöður kosninga sést að meðalfrávik í könnun Gallup er aðeins 1,2 prósentustig. Þegar eingöngu eru skoðaðir þeir flokkar sem buðu fram á landsvísu er meðalfrávikið örlítið hærra, eða 1,3 prósentustig, og 1,4 prósentustig ef aðeins eru skoðaðir þeir flokkar sem fengu yfir 1% fylgi. Þetta teljast lítil frávik og er meðalfrávik Gallup lægst af þeim kannanafyrirtækjum sem birtu kosningakannanir nú fyrir kosningar.

Kosningar vs lokapúls final.jpg

Síðustu daga mælingar Gallup kom fram stígandi hækkun á fylgi Framsóknarflokks en mælingin fór ekki fram síðasta sólarhringinn fyrir kosningar. Þessi hækkun flokksins endurspeglaðist í úrslitum kosninga. Svipað mynstur má sjá hjá einhverjum hinna flokkanna þó það sé ekki jafn greinilegt. Mælingar Gallup sýna að stórt hlutfall kjósenda ákveður á kjördag hvaða flokk það kýs. Í kosningamælingum Gallup undanfarið hafa á bilinu 26-29% kjósenda ákveðið sig á kjördag. Það er því ljóst að breytingar geta orðið á viðhorfi fólks frá því síðasta könnun er gerð og þar til kosið er. Leiða má líkum að því að meiri breytingar geti orðið á hug kjósenda eftir því sem flokkar í framboði eru fleiri og liggja nær hver öðrum málefnalega.

Hvenær ákveður fólk sig

Ýmislegt getur orðið til þess að breyta viðhorfi fólks, svo sem frammistaða frambjóðenda í umræðuþáttum rétt fyrir kosningar sem og neikvæð umræða um einstaka frambjóðendur, flokka eða stefnumál á lokaspretti kosningabaráttunnar. Þar sem stór hluti fólks gerir endanlega upp hug sinn á kjördag getur þetta haft áhrif á val þess. Hér er ekki tæmandi upptalning á þeim þáttum sem geta haft áhrif á úrslit kosninga en ljóst er að margt getur haft áhrif og heildarniðurstaðan úr samanburði á úrslitum kosninga og síðustu könnun Gallup verður að teljast almennt mjög góð. Gallup mun eftir sem áður leggja sig fram um að veita almenningi áreiðanlegar upplýsingar um fylgi stjórnmálaflokka fyrir kosningar og er sífellt að þróa leiðir til að bæta nákvæmni niðurstaðna.

Nánari upplýsingar um Þjóðarpúls Gallup