Í febrúar 2018 mældi Gallup traust almennings til ýmissa opinberra stofnana samfélagsins, en það hefur Gallup gert síðan 1993. Traust til þjóðkirkjunnar, lögreglunnar og dómskerfisins mælist lægra en í fyrra. Traust til heilbrigðiskerfisins mælist hærra en í fyrra og það sama má segja um þær fimm stofnanir sem mælast með minnst traust, sem eru umboðsmaður skuldara, Alþingi, Fjármálaeftirlitið, borgarstjórn og bankakerfið. *1

Traust til stofnana 2018

Sú stofnun sem flestir bera mikið traust til er eins og hingað til Landhelgisgæslan en hátt í 91% þeirra sem taka afstöðu bera mikið traust til hennar, sem er svipað hlutfall og síðustu ár.

Embætti forseta Íslands er í fyrsta skipti í öðru sæti en átta af hverjum tíu bera mikið traust til þess. Hlutfallið er svipað og í fyrra en þá hafði það hækkað mjög mikið frá árinu á undan, eða um 26 prósentustig.

Í þriðja sæti er lögreglan en hlutfall þeirra sem bera mikið traust til hennar er rúmlega 77%. Hlutfallið er nokkuð lægra en í fyrra en þá hafði það hækkað talsvert frá árinu á undan.

Næstu sex stofnanir eru í sömu röð og í fyrra. Slétt 74% bera mikið traust til Háskóla Íslands, sem er svipað hlutfall og síðustu ár. Rúmlega 65% bera mikið traust til heilbrigðiskerfisins, sem er örlítið hærra hlutfall en í fyrra. Ríflega 52% bera mikið traust til umboðsmanns Alþingis, rúmlega 48% til ríkissaksóknara og tæplega 47% til ríkissáttasemjara, sem eru svipuð hlutföll og í fyrra. Nær 36% bera svo mikið traust til dómskerfisins sem er nokkuð lægra hlutfall en í fyrra.

Rétt rúmlega 34% bera mikið traust til Seðlabankans en það er svipað hlutfall og í fyrra. Þrír af hverjum tíu bera mikið traust til þjóðkirkjunnar en það er nokkuð lægra hlutfall en í fyrra og fer hún niður um eitt sæti á listanum. Sama hlutfall ber mikið traust til embættis umboðsmanns skuldara en það er nokkuð hærra en í fyrra.

Hlutfall þeirra sem bera mikið traust til næstu fjögurra stofnana á listanum er einnig nokkuð hærra en í fyrra en nokkurn veginn í sömu röð. Tæplega 29% bera mikið traust til Alþingis, 28% til Fjármálaeftirlitsins, hátt í 24% til borgarstjórnar Reykjavíkur og tæplega fimmtungur til bankakerfisins.

Traust til stofnana 2018_þróun

*1 Aðrar breytingar eru ekki tölfræðilega marktækar

Spurt var: Hversu mikið eða lítið traust berð þú til ...? - Stofnanir og embætti birtust í tilviljunarkenndri röð.

Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem gerð var dagana 7. til 19. febrúar 2018. Heildarúrtaksstærð var 1.429 og þátttökuhlutfall var 56,4%. Einstaklingar voru
handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

Nánari upplýsingar um mælingar á trausti til stofnana.