Mynd með frétt: RÚV

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá mörgum að íslenska karlalandsliðið í handbolta keppir nú á EM. Íslendingar eru nokkuð áhugasamir um gengi þeirra en ríflega helmingur hefur mikinn áhuga á keppninni. Um þrír af hverjum tíu hafa hins vegar lítinn áhuga á henni og nær 16% hafa hvorki mikinn né lítinn áhuga.

Áhugi á EM í handbolta

Fólk er almennt líklegra til að hafa mikinn áhuga eftir því sem það er eldra en þó er fólk milli fertugs og fimmtugs líklegra en aðrir aldurshópar til að hafa gífurlegan áhuga. Fólk er að sama skapi líklegra til að hafa lítinn áhuga eftir því sem það er yngra, og fólk yngra en fertugt er líklegra en þeir sem eldri eru til að hafa engan áhuga á keppninni.

Fólk hefur mismikinn áhuga á mótinu eftir því hvað það kysi ef kosið yrði til Alþingis í dag, en þeir sem kysu Pírata hafa áberandi minnstan áhuga á því.

Greining á EM áhuga

Hverjir vinna?

Af þeim sem taka afstöðu telja flestir að Norðmenn muni standa uppi sem sigurvegarar, eða um þriðjungur, en ríflega þriðjungur aðspurðra tók ekki afstöðu. Næst sigurstranglegastir teljast Spánverjar, en um fimmtungur telur að þeir vinni mótið. Nær 8% spá Íslendingum sigri.

EM_hverjir vinna.jpg

Karlar eru líklegri en konur til að spá Spánverjum sigri en konur telja hins vegar frekar en karlar að Þjóðverjar hreppi fyrsta sætið.

Yngri kynslóðin hefur mun meiri trú en þeir sem eldri eru, á að Íslendingar sigri mótið, en um þrír af hverjum tíu fullorðnum undir þrítugu telja að þeir vinni.

Munur er á spá fólks eftir því hvort það býr á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni og eftir fjölskyldutekjum þess, og loks er munur eftir því hvað fólk kysi ef kosið yrði til Alþingis í dag. Þeir sem kysu Pírata eða Framsóknarflokkinn eru líklegri til að spá Íslendingum sigri en þeir sem kysu aðra flokka, en þar á eftir koma þeir sem kysu Vinstri græna. Þó flestir telji Norðmenn sigurstranglegasta eru þeir sem kysu Vinstri græna svartsýnni en aðrir á að þeir vinni mótið.

EM hverjir vinna greining.jpg

Í hvaða sæti lendum við?

Af þeim sem taka afstöðu telja landsmenn að meðaltali að íslenska karlalandsliðið í handbolta lendi í 7. sæti á EM, en fjórðungur aðspurðra tók ekki afstöðu.

EM_í_hvaða_sæti_lendum_vid.jpg

Eins og áður kom fram er yngsti aldurshópurinn bjartsýnni á gengi íslenska landsliðsins en þeir sem eldri eru, og sá hópur spáir okkar mönnum að meðaltali einu sæti ofar en aðrir, eða 6. sæti.

Í hvaða sæti lendir Ísland - greining

Spurt var:

  • Hve mikinn eða lítinn áhuga hefur þú á Evrópumóti karla í handbolta (EM í handbolta) sem fer fram um þessar mundir?
  • Hvaða þjóð telur þú að sigri Evrópumót karla í handbolta (EM í handbolta) 2020?
  • Í hvaða sæti telur þú að Íslendingar endi í keppninni?

Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem gerð var dagana 17. Janúar – 20. Janúar 2020. Gagnaöflun hófst á föstudegi meðan á leik Íslands og Slóveníu stóð, og lauk á mánudagsmorgun, en á sunnudaginn fór fram leikur Íslands og Portúgals ásamt því sem fleiri leikir fóru fram um helgina.

Þátttökuhlutfall var 36,8% úrtaksstærð 1.563 einstaklingar 18 ára eða eldri af öllu landinu valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup. Þátttökuhlutfall er aðeins lægra en almennt í mælingum Gallup þar sem gagnaöflunartími er styttri en gengur og gerist, enda könnunin meira til gamans gerð.