Nýleg könnun Gallup meðal almennings sýnir að 55% kvenna á Íslandi hefur verið í kór, en einungis um 20% karla. Á heildina litið eru það því um 38% Íslendinga sem hafa verið í kór einhvern tíma á lífsleiðinni, en meirihluti fólks (62%) hefur aldrei verið í kór.
Þó eru einungis milli 4% og 5% þjóðarinnar í kór í dag og þar eru hlutföll karla og kvenna nokkuð jöfn.

Í gegnum tíðina hafa ýmsar rannsóknir á jákvæðum áhrifum þess að syngja í kór verið gerðar og þar má nefna rannsóknargrein eftir Sigrúnu Lilju Einarsdóttur og Helgu Rut Guðmundsdóttur sem birt var árið 2016 í tímaritinu Music education research,þar sem meðal annars kom fram að 78% þátttakenda í rannsókninni voru mjög eða frekar sammála því að það að syngja í kór hefði aukandi áhrif á sjálfstraust (sjá nánar: https://doi.org/10.1080/14613808.2015.1049258).


Upplýsingar um könnunina:

Spurt var:

  • Ert þú eða hefur þú verið í kór?

Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 2. til 12. júní 2023. Heildarúrtaksstærð var 1.793 og þátttökuhlutfall var 49,8%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.