Af ráðherrum ríkisstjórnarinnar eru flestir ánægðir með störf Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup, en rúmlega 59% landsmanna eru ánægð með störf hennar. Þar á eftir kemur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, en nær 54% eru ánægð með störf hennar, en auk þess eru fæstir óánægðir með störf hennar. Í þriðja og fjórða sæti eru Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, en um 46% eru ánægð með störf þeirra.

Á hæla þeim kemur Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, en nær 43% eru ánægð með störf hans, þá Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, en nær 39% eru ánægð með störf hans, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra en um 37% eru ánægð með störf hennar.

Tæplega 35% eru ánægð með störf Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, en aðeins rúmlega 10% eru ánægð með störf Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Ánægja með störf ráðherra

Ánægja með ráðherra maí 2020

Að sama skapi eru langflestir óánægðir með störf Kristjáns Þórs, eða nær 62%. Rúmlega 35% eru óánægð með störf Áslaugar Örnu og Bjarna Benediktssonar, rúmlega 31% með störf Guðmundar Inga, 28% eru óánægð með störf Guðlaugs Þórs, nær 27% með störf Ásmundar Einars og nær 26% með störf Svandísar og Sigurðar Inga.

Þær þrjár sem flestir eru ánægðir með eru einnig fæstir óánægðir með. Slétt 21% er óánægt með störf Katrínar, rúmlega 18% eru óánægð með störf Þórdísar Kolbrúnar og rúmlega 17% eru óánægð með störf Lilju Daggar.

Meðaltal

Þegar meðaltalseinkunn er reiknuð út frá hlutfalli ánægðra og óánægðra er röð efstu fjögurra ráðherranna, þeirra Katrínar, Lilju, Þórdísar og Svandísar, sú sama og þegar hlutfall ánægðra er skoðað. Það sama má segja um Kristján Þór sem er í neðsta sæti. Bjarni, Áslaug Arna og Guðmundur Ingi færast hins vegar neðar á listann þar sem nokkuð hlutfall er óánægt með störf þeirra, en Sigurður Ingi, Ásmundur Einar og Guðlaugur Þór færast ofar á listann þar sem færri eru óánægðir með störf þeirra.

Óánægja með ráðherra maí 2020

Spurt var:

Spurt var á eftirfarandi hátt um alla ráðherra í ríkisstjórninni og misjafnt var í hvaða röð nöfn þeirra birtust svarendum: „Hversu ánægð(ur) eða óánægð(ur) ertu með störf [nafn ráðherra], [ráðherratitill]?“ Dæmi: „Hversu ánægð(ur) eða óánægð(ur) ertu með störf Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra?“

* Meðaltal er reiknað með því að leggja saman margfeldi af vægi svars og fjölda sem velja það svar og deila upp í summuna með heildarfjölda svara. Meðalánægja með ráðherra reiknast skv. eftirfarandi formúlu: [Fullkomlega ánægð(ur) (fj. x 7) + mjög ánægð(ur) (fj. x 6) + frekar ánægð(ur) (fj. x 5) + hvorki né (fj. x 4) + frekar óánægð(ur) (fj. x 3) + mjög óánægð(ur) (fj. x 2) + fullkomlega óánægð(ur) (fj. x 1)] / Heildarfjöldi svara. Meðaltalið tekur gildi á kvarðanum 1 til 7.

Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 8. til 19. maí 2020. Heildarúrtaksstærð var 3.075 og þátttökuhlutfall var 55,2%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.