Ríflega fimmtungur Íslendinga óttast mikið að smitast af COVID-19 en nær fjórir af hverjum tíu óttast það lítið og sama hlutfall óttast það hvorki mikið né lítið samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Þegar sömu spurningar var spurt í lok janúar og byrjun febrúar sögðust fleiri en nú óttast lítið að smitast, eða nær helmingur.

Ótti við að smitast af Covid-19

Áhyggjur af heilsufarslegum áhrifum

Fjórir af hverjum tíu hafa miklar áhyggjur af heilsufarslegum áhrifum COVID-19 á Íslandi en þrír af hverjum tíu hafa litlar áhyggjur af þeim og svipað hlutfall hefur hvorki miklar né litlar áhyggjur af þeim.

Áhyggjur af heilsufarslegum áhrifum Covid-19

Áhyggjur af efnahagslegum áhrifum

Tölurvert fleiri, eða nær sjö af hverjum tíu, hafa miklar áhyggjur af efnahagslegum áhrifum COVID-19 á Íslandi á meðan færri en einn af hverjum tíu hefur litlar áhyggjur af þeim og ríflega fimmtungur hefur hvorki miklar né litlar áhyggjur af þeim.

Áhyggjur af efnahagslegum áhrifum Covid-19

Breyting á venjum

Hátt í helmingur hefur breytt venjum sínum mikið til að forðast COVID-19 smit á meðan ríflega fjórðungur hefur breytt þeim lítið og svipað hlutfall hvorki mikið né lítið.

Breyting á venjum vegna Covid-19

Nær níu af hverjum tíu þvo og/eða spritta hendur sínar oftar eða betur en áður vegna COVID-19, hátt í átta af hverjum tíu forðast handabönd vegna COVID-19 og nær þrír af hverjum fjórum forðast faðmlög og/eða kossa. Hátt í sjö af hverjum tíu hósta og/eða hnerra síður út í loftið vegna COVID-19 og nær sex af hverjum tíu hósta og/eða hnerra síður í lófa. Rösklega helmingur þvær og/eða sprittar umhverfi sitt oftar eða betur en áður vegna COVID-19 og helmingur hefur forðast fjölfarna og/eða fjölsótta viðburði1. Rúmlega fjórir af hverjum tíu forðast að eiga óþarfa samskipti við annað fólk vegna COVID-19 og sama hlutfall snertir sjaldnar andlit sitt. Ríflega fjórðungur hefur nýlega breytt ferðaáætlunum sínum vegna COVID-19, rúmlega 17% vinna heiman frá sér að hluta til eða öllu leyti af sömu ástæðu, og einn af hverjum tíu stundar nám heiman frá sér að hluta til eða öllu leyti2. Innan við 3% segjast ekki hafa breytt venjum sínum.

Hvaða venjum hefur fólk breytt vegna Covid-19

Traust til almannavarna og heilbrigðisyfirvalda

Það er óhætt að segja að almenningur treysti almannavörnum og heilbrigðisyfirvöldum á Íslandi almennt til að takast á við COVID-19 en rúmlega níu af hverjum tíu treysta þeim vel til þess á meðan 5% treysta þeim illa og tæplega 5% hvorki vel né illa. Ef nánar er rýnt í svör þeirra sem treysta þeim vel, þá treysta hátt í fjórir af hverjum tíu þeim fullkomlega til þess og ríflega þriðjungur treystir þeim mjög vel.

Traust til almannavarna og heilbrigðisyfirvalda á tímum Covid-19

Traust til fjölmiðla

Ríflega tveir af hverjum þremur treysta umfjöllun fjölmiðla almennt vel á meðan rúmlega 13% treysta þeim almennt illa og 18% hvorki vel né illa3.

Of mikið eða lítið gert úr hættu Covid-19

Of mikið eða lítið gert úr hættu

Flestir, eða nær sjö af hverjum tíu, telja hæfilega mikið gert úr þeirri heilsufarslegu hættu sem stafar af COVID-19 á Íslandi. Rösklega fimmtungur telur of mikið gert úr henni en tæplega 9% telja of lítið gert úr henni.

Of mikið eða lítið gert úr hættu Covid-19

Sjúkdómseinkenni

Einungis tæp 3% telja sig vera með sjúkdómseinkenni sem passa við einkenni COVID-19 og svipað hlutfall telur sig hafa haft þau en ekki vera með þau lengur. Langflestir, eða rúmlega 94%, telja sig ekki hafa verið með slík einkenni. Svipað hlutfall telur einhvern nákominn sér vera með einkenni sem passa við COVID-19, eða rúmlega 4%, og tæplega 3% telja einhvern nákominn sér hafa verið með þau á meðan 93% telja engan nákominn sér hafa verið með slík einkenni.

Telur fólk sig/einvern nákominn vera með einkenni sem passa við Covid-19

Almannavarnir og heilbrigðisyfirvöld að gera of mikið eða lítið

Það rímar við traust almennings til almannavarna og heilbrigðisyfirvalda að langflestir, eða rúmlega 85%, telja þau vera að gera hæfilega mikið til að bregðast við COVID-19. Innan við 7% telja þau vera að gera of mikið og rúmlega 8% telja þau vera að gera of lítið.

Almannavarnir og heilbrigðisyfirvöld að gera of mikið eða lítið úr Covid-19

Ríkisstjórnin að gera of mikið eða lítið

Flestir telja íslensku ríkisstjórnina sömuleiðis vera að gera hæfilega mikið til að fyrirbyggja- eða bregðast við neikvæðum efnahagslegum áhrifum tengdum COVID-19, eða ríflega sjö af hverjum tíu. Ríflega fimmtungur telur hana hins vegar vera að gera of lítið á meðan tæp 6% telja hana gera of mikið.

Ríkisstjórnin að gera of mikið eða lítið úr Covid-19

Kvíði

Það kemur kannski ekki á óvart að í aðstæðum eins og uppi eru í heiminum í dag láti kvíði á sér kræla, en rösklega fjórðungur almennings segist almennt finna fyrir miklum kvíða vegna COVID-19. Rúmlega fjórir af hverjum tíu finna hins vegar fyrir litlum eða engum kvíða og ríflega þrír af hverjum tíu hvorki mikils né lítils kvíða.

Kvíði vegna Covid-19

Spurt var:

  • Óttast þú mikið eða lítið að smitast af COVID-19?
  • Hefur þú miklar eða litlar áhyggjur af heilsufarslegum áhrifum COVID-19 á Íslandi?
  • Hefur þú miklar eða litlar áhyggjur af efnahagslegum áhrifum COVID-19 á Íslandi?
  • Hversu mikið eða lítið hefur þú breytt venjum þínum til að forðast COVID-19 smit?
  • Hefur þú breytt venjum þínum í sambandi við einhverja af eftirfarandi þáttum vegna COVID-19?
  • Hversu vel eða illa treystir þú almannavörnum og heilbrigðisyfirvöldum á Íslandi til að takast á við COVID-19?
  • Hversu vel eða illa treystir þú almennt umfjöllun fjölmiðla um COVID-19?
  • Telur þú almennt of mikið, hæfilega eða of lítið gert úr heilsufarslegri hættu sem stafar af COVID-19 á Íslandi?
  • Telur þú þig vera með, eða hafa verið með, sjúkdómseinkenni sem passa við einkenni COVID-19?
  • Telur þú einhvern nákominn þér vera með, eða hafa verið með, einkenni sem passa við einkenni COVID-19?
  • Telur þú að almannavarnir og heilbrigðisyfirvöld á Íslandi séu að gera of mikið, hæfilega mikið eða of lítið til að bregðast við COVID-19?
  • Telur þú að íslenska ríkisstjórnin sé að gera of mikið, hæfilega mikið eða of lítið til að fyrirbyggja- eða bregðast við neikvæðum efnahagslegum áhrifum tengdum COVID-19?
  • Myndir þú segja að þú finnir almennt fyrir kvíða vegna COVID-19 eða ekki?

Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem gerð var dagana 13. - 16. mars 2020. Þátttökuhlutfall var 55,1%, úrtaksstærð 1.272 einstaklingar 18 ára eða eldri af öllu landinu valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup.