Mörg kannast við að hafa ruglað saman orðunum bakarí og apótek, þ.e. sagt orðið "bakarí" þegar þau ætluðu að segja "apótek" eða öfugt. Nánar tiltekið hafa um þrír af hverjum tíu landsmönnum lent í þessum ruglingi.

Heildarnidurstodur_v01.PNG

Af einhverri ástæðu virðast konur mun líklegri en karlar til þess að ruglast á orðunum bakarí og apótek, en nær 43% þeirra hafa ruglast á móti 16% karla. Höfuðborgarbúar eru sömuleiðis aðeins líklegri en íbúar landsbyggðarinnar til að segjast hafa ruglast á orðunum og fólk með háskólapróf er talsvert líklegra til þess en þau sem hafa minni menntun að baki. Þau sem kysu Viðreisn eða Samfylkinguna eru líklegust til að hafa ruglast á orðunum en þau sem kysu Sósíalistaflokkinn ólíklegust.

greiningar_v01.PNG

Á Vísindavefnum segir Heiða María Sigurðardóttir dósent við sálfræðideild Háskóla Íslands eftirfarandi um málið:

Sú ástæða sem mér finnst þess vegna trúlegust er að orðin apótek og bakarí eru lík bæði að formi og merkingu. Hvort tveggja eru þriggja atkvæða orð (ap-ó-tek, bak-ar-í) sem hljóma svolítið útlenskulega, enda eru þau bæði af erlendum uppruna. Fyrstu tvö hljóðin í orðunum (ap og ba) eru líka nokkurn veginn spegilmyndir hvors annars þar sem apótek er oft borið fram sem abótek. Þar að auki eru bæði apótek og bakarí sérverslanir þar sem fólk fer nær eingöngu til að kaupa tilteknar vörur.

Sjá pistil Heiðu Maríu í heild sinni á Vísindavefnum hér

Spurt var:

  • Manst þú eftir að hafa ruglað saman orðunum "apótek" og "bakarí" (þ.e. sagt orðið "bakarí" þegar þú ætlaðir að segja "apótek" eða öfugt)

Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 5. til 15. maí 2023. Heildarúrtaksstærð var 1.697 og þátttökuhlutfall var 49,7%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.