Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur í síðustu könnun Gallup fyrir Alþingiskosningarnar sem fram fara á morgun. Sjálfstæðisflokkur mælist með 27 prósenta fylgi, Píratar með 17,9%, Vinstri græn 16,5%, Framsóknarflokkurinn er fjórði stærsti flokkurinn með 9,3% fylgi, þá Viðreisn með 8,8%, Samfylking 7,4%, Björt framtíð 6,8% og Flokkur fólksins 3,4%. Aðrir flokkar mælast með minna fylgi.

fylgi flokka lokaspa 2016

Rúmlega 5% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og rúmlega 5% svarenda segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag.

Fylgistölur eru reiknaðar út frá svörum við þremur spurningum:

  • „Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa?"
  • Þeir sem voru óákveðnir voru spurðir: „En hvaða flokkur eða listi yrði líklegast fyrir valinu"?
  • Þeir sem enn voru óákveðnir voru spurðir: „Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?"

Niðurstöður sem hér birtast um fylgi flokkanna á landsvísu eru úr net- og símakönnun sem Gallup gerði dagana 24. - 28. október 2016.

Úrtakið í netkönnuninni var tilviljunarúrtak úr Viðhorfahópi Gallup, en úrtakið í símakönnuninni var tilviljunarúrtak úr Þjóðskrá. Heildar úrtaksstærð var 3.508 manns 18 ára eða eldri. Þátttökuhlutfall var 55,0%.

Nánari upplýsingar um Þjóðarpúls Gallup