Rúmlega sex af hverjum tíu með börn í sinni umsjá finnast börn sín eyða of miklum tíma í snjalltækjum (þ.m.t. síma og spjaldtölvu) og myndu vilja draga úr notkun þeirra en aldur barna hefur mikil áhrif. Helmingi landsmanna finnst hann sjálfur verja of miklum tíma í snjalltækjum og aðeins færri finnst maki sinn verja of miklum tíma í snjalltækjum, eða rúmlega 43% þeirra sem eiga maka. Þau sem sögðu börn sín ekki nota snjalltæki eru ekki inni í niðurstöðunum, en í flestum tilfellum var um mjög ung börn að ræða, og heldur ekki þau fáu sem sögðust ekki nota snjalltæki sjálf eða sögðu maka sinn ekki gera það.

mynd1_v01.PNG

Nær einu af hverjum tíu með börn tveggja ára eða yngri finnst börnin eyða of miklum tíma í snjalltækjum og hátt í fjórðungi fólks með börn á aldrinum þriggja til fimm ára. Hlutfallið hækkar upp í rúmlega helming hjá fólki með börn sex til níu ára og upp í um þrjú af hverjum fjórum hjá fólki með börn tíu ára eða eldri.

Eldri foreldrum finnst að jafnaði frekar en yngri að börn sín eyði of miklum tíma í snjalltækjum og foreldrum á höfuðborgarsvæðinu frekar en landsbyggðinni. Þeim sem hafa hæstar fjölskyldutekjur finnst það frekar en þeim sem hafa lægri tekjur.

mynd2_v01.PNG

Hlutfall þeirra sem finnst þau sjálf eyða of miklum tíma í snjalltækjum er hærra hjá fólki milli þrítugs og sextugs en hjá þeim sem eru yngri og eldri. Það er lægst hjá þeim sem eru sextug eða eldri. Hlutfallið er hærra meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins en landsbyggðarinnar og hærra eftir því sem fólk hefur hærri fjölskyldutekjur. Hlutfall þeirra sem finnst þau eyða of miklum tíma í snjalltækjum er lægra hjá þeim sem kysu Miðflokkinn eða Sósíalistaflokkinn ef kosið yrði til Alþingis nú en hjá þeim sem kysu aðra flokka. Hlutfallið er hærra meðal þeirra sem eru með börn á heimilinu en þeirra sem búa án barna.

mynd3_v01.PNG

Hlutfall þeirra sem finnst maki sinn eyða of miklum tíma í snjalltækjum er hæst hjá fólki milli þrítugs og fertugs, þá fólki milli fertugs og fimmtugs og svo fólki milli fimmtugs og sextugs en lægra hjá þeim sem eru undir þrítugu eða yfir sextugu. Hlutfall þeirra sem finnst makinn eyða of miklum tíma í snjalltækjum er hærra meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins en landsbyggðarinnar. Hlutfallið er hærra hjá þeim sem hafa hæstar og lægstar fjölskyldutekjur en þeim sem hafa meðaltekjur. Hlutfallið er lægst meðal þeirra sem kysu Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkinn en hæst meðal þeirra sem kysu Viðreisn. Hlutfallið er hærra meðal þeirra sem eru með börn á heimilinu en þeirra sem búa án barna, og hæst meðal þeirra sem eru með tvö börn.

mynd4_v01.PNG

Upplýsingar um könnunina:

Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 30. júní til 11. júlí 2023. Heildarúrtaksstærð var 1.700 og þátttökuhlutfall var 45,1%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

Notkun á efni Þjóðarpúls Gallup og tilvitnun í það er heimil svo lengi sem heimilda er getið.

Útgefið af:Gallup - Lynghálsi 4, 110 Reykjavík. Sími: 540 1200. Netfang: sigrun.drifa@gallup.is.

Umsjón með útgáfu:Sigrún Drífa Jónsdóttir.

Spurt var:
Ef þú hugsar almennt um notkun þína á snjalltækjum (þ.m.t. síma og spjaldtölvu) hvað af eftirfarandi á best við?
Ef þú hugsar almennt um notkun maka þíns á snjalltækjum (þ.m.t. síma og spjaldtölvu) hvað af eftirfarandi á best við?
Ef þú hugsar almennt um snjalltækjanotkun barnsins, hvað af eftirfarandi á best við?*

*Þau sem eiga fleiri en eitt barn voru spurð um hvert barn fyrir sig.