Sóttvarnarreglur sem voru í gildi yfir jól og áramót, t.d. varðandi fjöldatakmarkanir og fjarlægðarmörk, höfðu minni áhrif á jólahald landsmanna en þeir töldu fyrir fram að þær myndu gera. Fyrir jól töldu nær þrír af hverjum fimm landsmönnum að sóttvarnarreglur hefðu mikil áhrif á jólahald þeirra en eftir á telja aðeins tæplega 46% að þær hafi haft það. Einn af hverjum fimm taldi fyrir fram að reglurnar hefðu lítil áhrif á jólahaldið en eftir á telja ríflega 37% að þær hafi haft lítil áhrif.

Höfðu reglur sóttvarnaryfirvalda mikil eða lítil áhrif á jólahald þitt í ár?

Íbúar höfuðborgarsvæðisins telja frekar en íbúar landsbyggðarinnar að sóttvarnarreglur hafi haft mikil áhrif á jólahald sitt. Fólk er einnig líklegra til að telja það eftir því sem það hefur meiri menntun að baki, og almennt eftir því sem það hefur hærri fjölskyldutekjur.

Greining eftir búsetu, menntun og fjölskyldutekjum

Hátt í þrír af hverjum tíu segja að þó það hefði ekki haft nein áhrif á smithættu eða útbreiðslu COVID-19 hefðu þeir kosið að halda jólin samkvæmt þeim reglum sem voru í gildi frekar en að hitta fleira fólk um jólin, t.d. í jólaboðum. Þetta er hærra hlutfall en þegar spurt var fyrir jól, þegar rúmlega tveir af hverjum tíu sögðust kjósa það. Rúmlega sjö af hverjum tíu segja hins vegar að þeir hefðu kosið að hitta fleira fólk um jólin en leyfilegt var, ef það hefði ekki haft nein áhrif á smithættu eða útbreiðslu COVID-19. Þetta er að sama skapi lægra hlutfall en fyrir jól, þegar nær átta af hverjum tíu sögðust kjósa það.

Hefðir þú kosið að hitta fleira fólk um jólin en nú er leyfilegt, eða myndir þú kjósa að halda þau samkvæmt þeim reglum sem eru í gilidi?

Þeir sem hafa einungis grunnskólapróf eru mun líklegri en þeir sem hafa meiri menntun að baki, til að hafa kosið að halda jólin samkvæmt þeim sóttvarnarreglum sem voru í gildi jafnvel þó það hefði ekki haft nein áhrif á smithættu eða útbreiðslu faraldursins.

Greining eftir menntun

Spurt var:

Orðalag eftir jól: Höfðu reglur sóttvarnaryfirvalda vegna COVID-19 (t.d. fjöldatakmarkanir og fjarlægðarmörk) mikil eða lítil áhrif á jólahald þitt í ár? Ef það hefði ekki haft nein áhrif á smithættu eða útbreiðslu COVID-19, hefðir þú kosið að hitta fleira fólk um jólin (t.d. í jólaboðum) en nú var leyfilegt, eða hefðir þú enn kosið að halda jólin samkvæmt þeim reglum sem voru í gildi?

Orðalag fyrir jól (mælingin fór fram 14. - 27. desember 2020 en nánast öll svör komu inn fyrir jól): Hafa reglur sóttvarnaryfirvalda vegna COVID-19 (t.d. fjöldatakmarkanir og fjarlægðarmörk) mikil eða lítil áhrif á jólahald þitt í ár? Ef það hefði engin áhrif á smithættu eða útbreiðslu COVID-19, myndir þú kjósa að hitta fleira fólk um jólin (t.d. í jólaboðum) en nú er leyfilegt, eða myndir þú enn kjósa að halda þau samkvæmt þeim reglum sem eru í gildi?

Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem gerð var dagana 29. desember 2020—10. janúar 2021.

Þátttökuhlutfall var 51,4%, úrtaksstærð 1.618 einstaklingar 18 ára eða eldri af öllu landinu valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup.

Nánari upplýsingar um Þjóðarpúls Gallup