Um þriðjungur Íslendinga ber mikið traust til þjóðkirkjunnar. Það er svipað hlutfall og í fyrra en þá lækkaði það frá fyrri mælingum. Nær þriðjungur ber hvorki mikið né lítið traust til þjóðkirkjunnar og um þriðjungur ber lítið traust til hennar.

kirkjan 2019.jpg

Kjósendur Framsóknarflokksins bera mest traust til þjóðkirkjunnar

Konur bera aðeins meira traust til þjóðkirkjunnar en karlar, og eldra fólk ber að jafnaði meira traust til hennar en yngra fólk. Íbúar landsbyggðarinnar bera einnig meira traust til þjóðkirkjunnar en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Það er munur eftir því hvað fólk kysi til Alþingis ef kosið yrði í dag, en traustið er mest hjá þeim sem kysu Framsóknarflokkinn en minnst hjá þeim sem kysu Pírata.

kirkjan 2019_greining_mynd2.jpg

Aukin ánægja með störf biskups

Um 19% eru ánægð með störf Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands. Í fyrra minnkaði ánægja með störf biskups mikið og hafði ekki mælst lægri í rúmlega tveggja áratuga sögu mælinganna. Ánægjan með störf biskups eykst hins vegar um 5 prósentustig núna og er þetta í fyrsta skipti sem ánægja með störf sitjandi biskups eykst í mælingum Gallup. Hátt í helmingur er hvorki ánægður né óánægður með störf biskups en nær þriðjungur er óánægður með störf Agnesar.

Biskum_2019_mynd3.jpg

Ungt fólk ánægðast með störf biskups.

Karlar eru líklegri en konur til að vera ánægðir með störf biskups. Það er líka munur eftir aldri og er fólk yngra en 30 ára ánægðast með störf biskups. Íbúar landsbyggðarinnar eru ánægðari með störf biskups en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Loks er munur eftir því hvað fólk kysi til Alþingis ef kosið yrði í dag, en þeir sem kysu Framsóknarflokkinn eru ánægðastir með störf biskups og þeir sem kysu Pírata óánægðastir.

biskup 2019_greining_mynd4.jpg

Meirihluti hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju

Meirihluti Íslendinga er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju, eða rúmlega 55%, en það er svipað hlutfall og undanfarin ár. Ríflega fimmtungur er hvorki hlynntur né andvígur aðskilnaði ríkis og kirkju, og tæplega fjórðungur er andvígur.

Aðskilnaður ríkis og kirkju_mynd5.jpg

Karlar eru hlynntari aðskilnaði ríkis og kirkju en konur, og fólk er hlynntara aðskilnaði eftir því sem það er yngra. Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru hlynntari aðskilnaði ríkis og kirkju en íbúar landsbyggðarinnar, og fólk er hlynntara aðskilnaði eftir því sem það hefur meiri menntun að baki. Loks er munur á viðhorfi fólks eftir því hvað það kysi til Alþingis ef kosið yrði í dag. Þeir sem kysu Pírata eru líklegastir til að vera hlynntir aðskilnaði ríkis og kirkju, en þeir sem kysu Framsóknarflokkinn líklegastir til að vera andvígir.

Aðskilnaður ríkis og kirkju_mynd6.jpg

Spurt var:

  • Hversu mikið eða lítið traust berð þú til þjóðkirkjunnar?
  • Ertu ánægð(ur) eða óánægð(ur) með störf Agnesar M.
  • Sigurðardóttur, biskups Íslands?
  • Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) aðskilnaði ríkis og kirkju?

Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem gerð var dagana 13.– 23. september 2019. Þátttökuhlutfall var 55,6%, úrtaksstærð 1.612 einstaklingar. Einstaklingarnir voru 18 ára eða eldri af öllu landinu, valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup.

Nánari upplýsingar um Þjóðarpúls Gallup