Talsverðar breytingar eru á trausti almennings til ýmissa stofnana samfélagsins og í langflestum tilvikum eykst traust landsmanna frá því í fyrra. Traust til tveggja stofnana tekur mjög stórt stökk upp á við en hlutfall þeirra sem bera mikið traust til heilbrigðiskerfisins hækkar um 22 prósentustig og hlutfall þeirra sem bera mikið traust til Seðlabankans hækkar um 17 prósentustig. Traust til Alþingis og til ríkissáttasemjara hækkar einnig mikið, eða um 11 prósentustig, og það sama má segja um traust til dómskerfisins sem hækkar um 9 prósentustig og traust til Háskólans sem hækkar um 7 prósentustig. Traust til bankakerfisins, borgarstjórnar og ríkissaksóknara hækkar um 5 prósentustig.

Hlutfall sem ber mikið traust til stofnana í febrúar 2021

Sú stofnun sem flestir bera mest traust til er eins og hingað til Landhelgisgæslan, en 86% þeirra sem taka afstöðu bera mikið traust til hennar.

Embætti forseta Íslands mælist í öðru sæti fjórða árið í röð, en fjórir af hverjum fimm bera mikið traust til þess. Traust til embættisins jókst mikið þegar Guðni Th. Jóhannesson tók við því fyrir fimm árum og hefur hlutfallið haldist svipað síðan.

Í þriðja sæti er heilbrigðiskerfið sem er hástökkvari ársins en traust til þess hefur aukist gífurlega frá því í fyrra. Þá hafði það þó farið niður um 12 prósentustig frá árinu á undan. Nær 79% bera mikið traust til heilbrigðiskerfisins nú samanborið við 57% á sama tíma í fyrra, en það er hæsta mæling heilbrigðiskerfisins frá því þær hófust fyrir hátt í þremur áratugum. Það má ímynda sér að faraldurinn sem hefur gengið yfir heimsbyggðina síðastliðið ár, og þáttur heilbrigðiskerfis og sóttvarnaryfirvalda á Íslandi í viðbrögðum við honum, eigi þátt í þessari hækkun.

Ríflega 77% bera mikið traust til Háskóla Íslands og er það hækkun frá því í fyrra þegar sjö af hverjum tíu báru mikið traust til hans en það var lægsta mæling hans frá upphafi.

Nær 72% bera mikið traust til lögreglunnar og er það svipað hlutfall og í fyrra.

Traust til Seðlabanka Íslands hefur að jafnaði verið á uppleið síðan mælingar á því hófust eftir bankahrunið, en það tók stökk upp á við í fyrra og tekur aftur stórt stökk upp á við í ár. Í fyrra fór það upp um 14 prósentustig og núna fer það upp um 17 prósentustig þegar 62% segjast bera mikið traust til Seðlabankans.

Traust til ríkissáttasemjara lækkaði um 7 prósentustig í fyrra en hækkar nú um 11 prósentustig og bera 52% landsmanna mikið traust til embættisins. Aðalsteinn Leifsson tók við embætti ríkissáttasemjara síðastliðið vor en hann hafði áður verið aðstoðarsáttasemjari hjá embættinu.

Nær 49% bera mikið traust til umboðsmanns Alþingis en traustið hefur aðeins farið minnkandi á síðustu tveimur árum.

Um 47% bera mikið traust til ríkissaksóknara. Það er hækkun um fimm prósentustig síðan í fyrra en þá hafði hlutfallið lækkað um níu prósentustig frá árinu áður.

Traust til dómskerfisins hækkar um níu prósentustig og bera 46% landsmanna mikið traust til þess nú, en traust til dómskerfisins hefur sveiflast talsvert síðustu ár.

Traust til Alþingis hækkar um 11 prósentustig, 34% landsmanna bera mikið traust til þess nú og hefur traustið ekki mælst hærra síðan fyrir hrun bankanna 2008, en það tók mikla dýfu eftir hrunið.

Þjóðkirkjan nýtur mikils trausts 32% landsmanna sem er svipað hlutfall og undanfarin ár.

Traust til bankakerfisins tók enn dýpri dýfu eftir bankahrunið en traust til Alþingis, en hefur hægt og bítandi verið að aukast aftur síðan. Í byrjun árs 2008 báru ríflega 40% landsmanna mikið traust til þess, það fór niður í tæp 4% eftir hrun en hefur eins og áður sagði þokast upp á við síðan, hækkar um sex prósentustig frá í fyrra og nú bera 26% landsmanna mikið traust til þess.

Borgarstjórn Reykjavíkur nýtur mikils trausts 22% landsmanna og er það hækkun um fimm prósentustig frá í fyrra, en nær 34% Reykvíkinga bera mikið traust til borgarstjórnar.

Spurt var: Hversu mikið eða lítið traust berð þú til ...? - Stofnanir og embætti birtust í tilviljunarkenndri röð.

Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem gerð var dagana 4. til 15. febrúar 2021. Heildarúrtaksstærð var 1.587 og þátttökuhlutfall var 52,9%. Einstaklingar voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.