Frá árinu 2008 hefur Gallup mælt sjónvarpsáhorf og útvarpshlustun með rafrænum hætti. Í samstarfi við alþjóðlega rannsóknarfyrirtækið Kantar Media (áður TNS) notar Gallup mæliaðferð sem kallast PPM (Portable People Meter) til að mæla á hvað fólk horfir og hvað það hlustar á. PPM mælitækin greina hljóðmerki sem Gallup kemur fyrir í útsendingum mældra sjónvarps- og útvarpsstöðva. Merkið er falið í útsendingunni og mannseyrað nemur það ekki. Í kjölfar ítarlegrar rannsóknar á ljósvakanotkun byggir Gallup upp og viðheldur hópi þátttakenda sem endurspeglar almenning í landinu m.t.t. ljósvakanotkunar. Í Fjölmiðlahópnum eru um 500 manns á aldrinum 12-80 ára sem bera PPM-mælitækið á sér yfir daginn. PPM tækið skráir hvenær horft er eða hlustað á hverja stöð og á hverri nóttu eru gögnin send til Gallup. Gallup birtir vikulega á heimasíðu sinni grunnupplýsingar um notkun á hverri mældri stöð en miðlarnir og birtingarfyrirtækin hafa svo aðgang að ítarlegum gögnum um notkun fólks á hverjum miðli. Öllum sjónvarps- og útvarpsstöðvum stendur til boða að taka þátt í rafrænum ljósvakamælingum. Gera má ráð fyrir því að það taki 4-12 vikur að hefja mælingar á nýrri stöð en það fer eftir útsendingarkeðju og aðgengi að mælitækjum hverju sinni.

Upplýsingar um aðkomu nýrra aðila að rafrænum ljósvakamælingum fá finna hér.

Viðmiðunarreglur um birtingu upplýsinga úr rafrænum ljósvakamælingum

Þegar verið er að birta upplýsingar úr rafrænum ljósvakamælingum skal vitna í mælinguna og taka fram skilgreiningu á hópi, mælieiningu, mælingartímabili og fjölda svara að baki greiningunni. Þegar unnið er úr gögnum úr rafrænum ljósvakamælingum skal hafa hugfast að því færri svör sem liggja að baki í greiningum því stærri verða vikmörkin. Þegar hlutdeildarupplýsingar eru sýndar hvort sem er um sjónvarpsáhorf eða útvarpshlustun skal tekið fram að hlutdeildin eigi við um mælda miðlar ekki aðra.