Rúmlega sex af hverjum tíu hlökkuðu til jólanna, 4% kviðu þeim, fimmtungur bæði hlökkuðu til jólanna og kvíðu þeim en 14% hvorki hlökkuðu til þeirra né kviðu þeim. Hlutfall þeirra sem hlökkuðu til jólanna er lægra en undanfarin tvö ár og hlutfall þeirra sem bæði hlakkaði til jólanna og kviðu þeim er hærra en áður.

Hlakkar þú til jólanna eða kvíðir þú þeim?

Karlar eru líklegri en konur til að segjast hvorki hlakka til jólanna né kvíða þeim, á meðan konur eru líklegri til að segjast bæði hlakka til jólanna og kvíða þeim. Munur kemur einnig fram eftir aldri. Hlutfall þeirra sem hlakka til jólanna er lægst meðal fólks milli þrítugs og fertugs og hlutfall þeirra sem bæði hlakka til jólanna og kvíða þeim hæst. Munur kemur fram eftir menntun og ljóst er að fjárráð hafa mikil áhrif á það hvort fólk hlakkar til jólanna eða ekki. Fólk er líklegra til að hlakka til jólanna eftir því sem það hefur hærri fjölskyldutekjur, og fólk í lægstu tekjuhópunum er líklegra til að kvíða jólunum. Tveir af hverjum þremur sem segjast eiga fyrir jólahaldinu hlakka til jólanna á meðan tæplega þrír af hverjum tíu sem segjast ekki eiga fyrir jólahaldinu gera það. Að sama skapi kvíða um 3% þeirra sem eiga fyrir jólahaldinu jólunum og nær 17% bæði hlakka til þeirra og kvíða þeim á meðan ríflega 12% þeirra sem eiga ekki fyrir jólahaldinu kvíða jólunum og 43% bæði hlakka til þeirra og kvíða þeim. Munur kemur einnig fram eftir því hvað fólk kysi til Alþingis en þau sem kysu Flokk fólksins hlakka síst til jólanna og kvíða þeim helst. Þar á eftir koma þau sem kysu Sósíalistaflokk Íslands og þá þau sem kysu Pírata. Þau sem kysu Viðreisn eru líklegust til að hlakka til jólanna og ólíklegust til að kvíða þeim.

Hlakkar þú til jólanna eða kvíðir þú þeim - greining

Að hafa efni á jólunum

Um 12% landsmanna sagðist ekki eiga fyrir jólahaldinu í ár. Það er svipað hlutfall og síðustu þrjú ár en lægra hlutfall en í eldri mælingum.

Áttu fyrir jólahaldinu í ár?

Fólk er ólíklegra til að eiga fyrir jólahaldinu eftir því sem það er yngra. Þau sem hafa minni menntun og lægri fjölskyldutekjur eru ólíklegri til að segjast eiga fyrir því en þau sem hafa meiri menntun og hærri tekjur. Munur kemur fram eftir því hvað fólk kysi til Alþingis en þau sem kysu Sósíalistaflokkinn eiga síst fyrir jólahaldinu, þá þau sem kysu Flokk fólksins og næst þau sem kysu Pírata. Þau sem kysu Miðflokkinn eru líklegust til að eiga fyrir jólahaldinu, þá þau sem kysu Sjálfstæðisflokkinn og næst þau sem kysu Framsóknarflokkinn.

Áttu fyrir jólahaldinu í ár - Greining

Spurt var:

  • Nú eru jólin á næsta leiti, myndir þú segja að þú hlakkir til jólanna eða myndir þú segja að þú kvíðir þeim?
  • Áttu fyrir jólahaldinu í ár?

Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 10. til 20. desember 2021. Heildarúrtaksstærð var 2.663 og þátttökuhlutfall var 52,6%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

Nánari upplýsingar um Þjóðarpúls Gallup