Ríflega þrír af hverjum tíu eru fylgjandi frumvarpi um hálendisþjóðgarð sem umhverfisráðherra mælti fyrir á Alþingi í byrjun desember síðastliðnum, en 43% andvíg. Rúmlega 26% segjast hvorki fylgjandi né andvíg.

Viðhorf til frumvarps um hálendisþjóðgarð

Konur eru frekar fylgjandi frumvarpinu en karlar. Einnig er munur eftir aldri, en eldra fólk er að jafnaði frekar andvígt frumvarpinu en yngra fólk. Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru mun líklegri til að vera fylgjandi frumvarpinu en íbúar landsbyggðarinnar. Fólk er einnig líklegra til að vera fylgjandi frumvarpinu eftir því sem það hefur meiri menntun að baki. Mjög mikill munur er á afstöðu fólks eftir því hvaða flokk það kysi ef kosið til Alþingis í dag. Þeir sem kysu Miðflokkinn eru líklegastir til að vera andvígir frumvarpinu, þeir sem kysu Framsóknarflokkinn næstlíklegastir og þá þeir sem kysu Sjálfstæðisflokkinn. Þeir sem kysu Vinstri græn eða Samfylkinguna eru aftur á móti líklegastir til að vera hlynntir frumvarpinu. Þeir sem telja sig hafa mikla þekkingu á frumvarpinu eru bæði líklegri til að vera fylgjandi og andvígir því en þeir sem telja sig hafa litla þekkingu á því. Loks eru þeir sem eru almennt fylgjandi því að hálendi Íslands verði gert að þjóðgarði mun líklegri til að vera fylgjandi frumvarpinu en aðrir.

Nánari greining á niðurstöðum

Þekking á frumvarpi

Tæplega 29% telja sig hafa mikla þekkingu á frumvarpi umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð en nær 43% litla. Hátt í 29% segjast hvorki hafa mikla né litla þekkingu á því.

Þekking á frumvarpi um hálendisþjóðgarð

Karlar telja sig frekar hafa mikla þekkingu á frumvarpinu en konur. Munur er eftir aldri en fólk yfir sextugu er líklegast til að segjast hafa mikla þekkingu á frumvarpinu. Íbúar landsbyggðarinnar segjast frekar en höfuðborgarbúar hafa mikla þekkingu á því. Mikill munur er á metinni þekkingu á frumvarpinu eftir því hvað fólk kysi ef kosið yrði til Alþingis í dag. Þeir sem kysu Miðflokkinn eru líklegastir til að telja sig hafa mikla þekkingu á frumvarpinu, en af þeim sem kysu eru þeir sem kysu Viðreisn líklegastir til að segjast hafa litla þekkingu á því. Þeir sem eru almennt andvígir því að hálendi Íslands verði gert að þjóðgarði eru líklegri til að telja sig þekkja frumvarp umhverfisráðherra vel en þeir sem eru almennt fylgjandi því að hálendið verði gert að þjóðgarði.

Þekking á frumvarpi, greining

Almennt viðhorf til hálendisþjóðgarðs

Ríflega 45% eru almennt fylgjandi því að hálendi Íslands verði gert að þjóðgarði burtséð frá frumvarpi umhverfisráðherra, sem er hærra hlutfall en er fylgjandi frumvarpi hans. Rúmlega 34% eru andvíg því að hálendið verði gert að þjóðgarði og rösklega einn af hverjum fimm segist hvorki fylgjandi né andvígur því.

Viðhorf til þess að hálendi Íslands verði gert að þjóðgarði

Munur er á viðhorfi fólks eftir aldri og höfuðborgarbúar eru talsvert líklegri en íbúar landsbyggðarinnar til að vera fylgjandi því að hálendi Íslands verði gert að þjóðgarði. Fólk er líklegra til að vera fylgjandi því eftir því sem það hefur meiri menntun, og munur mælist eftir fjölskyldutekjum og því hvað fólk kysi ef kosið yrði til Alþingis nú. Þeir sem kysu Framsóknarflokkinn eru líklegastir til að vera andvígir því að hálendi Íslands verði gert að þjóðgarði, þeir sem kysu Miðflokkinn eru næstlíklegastir til þess og þá þeir sem kysu Sjálfstæðisflokkinn. Þeir sem kysu Vinstri græn, Pírata, Samfylkinguna eða Viðreisn eru aftur á móti líklegastir til að vera fylgjandi því.

Almennt viðhorf til hálendisþjóðgarðs, greining

Spurt var:

  • Ertu fylgjandi eða andvíg(ur) frumvarpi um hálendisþjóðgarð sem umhverfisráðherra mælti fyrir á Alþingi í byrjun desember?
  • Hversu mikil eða lítil er þekking þín á frumvarpi um hálendisþjóðgarð sem umhverfisráðherra mælti fyrir á Alþingi í byrjun desember?
  • Burtséð frá frumvarpi umhverfisráðherra, ertu almennt fylgjandi eða andvíg(ur) því að hálendi Íslands verði gert að þjóðgarði?

Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem gerð var dagana 29. desember 2020—10. janúar 2021.

Þátttökuhlutfall var 51,4%, úrtaksstærð 1.618 einstaklingar 18 ára eða eldri af öllu landinu valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup.

Nánari upplýsingar um Þjóðarpúls Gallup