Nær tveir af hverjum þremur landsmönnum hlökkuðu til jólanna á meðan nær 5% kviðu þeim. Tæplega 17% bæði hlökkuðu til og kviðu þeim en nær 14% hvorki hlökkuðu til þeirra né kviðu þeim. Niðurstöðurnar eru svipaðar og í fyrri mælingum.

Hlakkar þú til jólanna eða kvíðir þú þeim?

Konur eru líklegri en karlar til að segjast hlakka til jólanna, en karlar eru hins vegar líklegri en konur til að segjast hvorki hlakka til þeirra né kvíða þeim. Ungt fólk, undir þrítugu, er líklegast til að kvíða jólunum. Fólk er svo líklegra til að hlakka til jólanna eftir því sem það er eldra ef frá er talinn elsti hópurinn, fólk yfir sextugu, en það er líklegra en aðrir til að segjast hvorki hlakka til jólanna né kvíða þeim. Fólk sem hefur háskólamenntun er líklegra til að hlakka til jólanna en þeir sem hafa minni menntun að baki, og ólíklegra til að kvíða þeim. Þeir sem hafa hærri fjölskyldutekjur eru að sama skapi að jafnaði líklegri til að hlakka til jólanna en þeir sem hafa lægri tekjur, og ólíklegri til að kvíða þeim. Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar eftir því hvaða stjórnmálaflokk fólk kysi ef kosið yrði til Alþingis, eru þeir sem kysu Pírata líklegastir til að kvíða fyrir jólunum.

Hlakkar þú til jólana eða kvíðir þú þeim, greining

Að hafa efni á jólunum

Ríflega einn af hverjum tíu sagðist ekki eiga fyrir jólahaldinu í ár en það er svipað hlutfall og síðustu ár.

Áttu fyrir jólunum í ár

Þeir sem hafa lokið háskólaprófi og þeir sem hafa hærri fjölskyldutekjur segjast frekar eiga fyrir jólahaldinu en þeir sem hafa minni menntun að baki og þeir sem hafa lægri fjölskyldutekjur. Einnig kemur fram munur eftir því hvað fólk kysi til Alþingis.

Áttu fyrir jólunum í ár, greining

Sóttvarnarreglur

Nær þrír af hverjum fimm segja reglur sóttvarnaryfirvalda vegna COVID-19 (t.d. fjöldatakmarkanir og fjarlægðarmörk) hafa mikil áhrif á jólahald sitt í ár. Ríflega einn af hverjum fimm segja þær hafa lítil áhrif og einn af hverjum fimm hvorki mikil né lítil.

Hafa sóttvarnarreglur mikil eða lítil áhrif á jólahald þitt í ár?

Konur eru líklegri en karlar til að segja sóttvarnarreglur hafa lítil áhrif, á meðan karlar eru líklegri en konur til að segja þær hvorki hafa mikil né lítil áhrif á jólahaldið. Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru líklegri en íbúar landsbyggðarinnar til að segja reglurnar hafa mjög mikil áhrif á jólahald sitt, og fólk með háskólapróf er sömuleiðis líklegra til þess að segja reglurnar hafa mikil áhrif en þeir sem hafa minni menntun að baki.

Hafa sóttvarnarreglur mikil eða lítil áhrif á jólahald þitt í ár?

Næst var fólk spurt hvort það kysi að hitta fleira fólk um jólin (t.d. í jólaboðum) en nú er leyfilegt, ef það hefði engin áhrif á smithættu eða útbreiðslu COVID-19, eða hvort það kysi enn að halda jólin samkvæmt þeim reglum sem eru í gildi. Nær fjórir af hverjum fimm sögðust vilja hitta fleira fólk, en einn af hverjum fimm sagðist kjósa að halda jólin samkvæmt þeim reglum sem nú eru í gildi þó það hefði engin áhrif.

Myndir þú kjósa að hitta fleira fólk um jólin en nú er leyfilegt?

Þeir sem hafa minni menntun að baki og þeir sem hafa lægri fjölskyldutekjur kjósa frekar að halda jólin samkvæmt þeim sóttvarnarreglum sem eru í gildi en þeir sem hafa lokið háskólaprófi og þeir sem hafa hærri fjölskyldutekjur. Einnig kemur fram munur eftir því hvað fólk kysi til Alþingis.

Myndir þú kjósa að hitta fleira fólk um jólin en nú er leyfilegt, greining

Spurt var:

  • Nú eru jólin á næsta leiti, myndir þú segja að þú hlakkir til jólanna eða myndir þú segja að þú kvíðir þeim?
  • Áttu fyrir jólahaldinu í ár?
  • Hafa reglur sóttvarnaryfirvalda vegna COVID-19 (t.d. fjöldatakmarkanir og fjarlægðarmörk) mikil eða lítil áhrif á jólahald þitt í ár?
  • Ef það hefði engin áhrif á smithættu eða útbreiðslu COVID-19, myndir þú kjósa að hitta fleira fólk um jólin (t.d. í jólaboðum) en nú er leyfilegt, eða myndir þú enn kjósa að halda þau samkvæmt þeim reglum sem eru í gildi?

Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem gerð var dagana 14. - 27. desember 2020.

Þátttökuhlutfall var 51,3%, úrtaksstærð 1.600 einstaklingar 18 ára eða eldri af öllu landinu valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup.

Nánari upplýsingar um Þjóðarpúls Gallup