Jarðskjálftahrinan sem hefur verið á Reykjanesi undanfarið hefur væntanlega ekki farið fram hjá mörgum og möguleiki talinn á að eldgos geti verið í vændum eða jafnvel stór skjálfti.

Rúmlega 85% landsmanna segjast hafa fundið fyrir jarðskjálftum síðustu daga eða vikur. Ríflega helmingur landsmanna segist hafa fundið mikið fyrir skjálftum en rúmlega 37% segjast hafa fundið lítið eða ekkert fyrir þeim.

Fundið fyrir jarðskjálftum?

Yngra fólk hefur frekar fundið fyrir skjálftum en eldra. Á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu hafa nær allir fundið fyrir skjálftum undanfarið en mismikið. Nær 88% íbúa á Suðurnesjum segjast hafa fundið mikið fyrir skjálftum undanfarið, næstum 63% íbúa höfuðborgarsvæðisins, rúmlega 42% íbúa á Vesturlandi, ríflega fjórðungur á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra og nær 14% á Suðurlandi. Slétt 6% hafa fundið mikið fyrir skjálftum á Norðurlandi eystra undanfarið en enginn á Austurlandi. Fólk er líklegra til að hafa fundið fyrir skjálftum eftir því sem það hefur meiri menntun að baki. Við höfum ekki upplýsingar um ástæðuna fyrir því en það má láta sér detta í hug að það geti mögulega tengst mismunandi menntunarstigi á mismunandi búsetusvæðum eða því hvort fólk sé í kyrrsetu eða á hreyfingu þegar skjálftarnir verða. Einnig kemur fram munur eftir fjölskyldutekjum.

Greining á spurningu um hvort fólk hafi fundið fyrir jarðskjálftunum.

Áhyggjur

Þeir sem hafa fundið fyrir skjálftum undanfarið segja þá almennt ekki hafa valdið sér miklum áhyggjum. Tveir af hverjum þremur segja þá hafa valdið sér litlum eða engum áhyggjum en ríflega 12% segja þá hafa valdið sér miklum áhyggjum.

Hafa jarðskjálftar valdið áhyggjum?

Konur eru líklegri en karlar til að segja skjálftana hafa valdið sér áhyggjum og eðlilega eru Suðurnesjabúar líklegri en þeir sem búa annars staðar til að segja skjálftana hafa valdið sér áhyggjum. Tiltölulega fáir höfuðborgarbúar hafa miklar áhyggjur af skjálftunum þrátt fyrir það hve margir þeirra hafa fundið fyrir þeim. Þeir sem hafa fundið mikið fyrir skjálftunum eru loks mun líklegri til að vera áhyggjufullir vegna þeirra en þeir sem hafa fundið lítið fyrir þeim.

Greining á spurningu um hvort jarðskjálftarnir undanfarið hafi valdið fólki áhyggjum

Viðbrögð

Margir þeirra sem hafa fundið fyrir skjálftunum hafa brugðist við þeim á einhvern hátt. Hátt í helmingur hefur reynt að tryggja að húsmunir verði ekki fyrir- eða valdi tjóni og nær 28% hafa farið yfir rétt viðbrögð við jarðskjálftum. Nær 3% hafa svo tekið saman nauðsynlegan búnað ef tjón yrði eða rýma þyrfti húsnæði.

Gert eitthvað af eftirfarandi vegna skjálftanna

Eftir því sem fólk er eldra er það líklegra til að segja að það sjálft eða einhver á heimilinu hafi reynt að tryggja að húsmunir verði ekki fyrir- eða valdi tjóni. Íbúar Suðurnesja, höfuðborgarsvæðisins og Vesturlands eru einnig líklegri en íbúar annarra svæða til að hafa tryggt húsmuni. Þeir sem hafa fundið lítið fyrir skjálftum eru ólíklegri til þess að hafa tryggt húsmuni en þeir sem hafa fundið meira fyrir þeim.

Reynt að tryggja að húsmunir verði ekki fyrir eða valdi tjóni - greining

Konur eru líklegri en karlar til að hafa farið yfir rétt viðbrögð við jarðskjálftum. Fólk er mislíklegt til að hafa gert það eftir því á hvaða aldri það er en fólk milli fertugs og fimmtugs hefur helst gert það. Þeir sem hafa lokið háskólamenntun eru líklegri til að hafa farið yfir rétt viðbrögð en þeir sem hafa minni menntun að baki. Þeir sem hafa fundið mikið fyrir skjálftum eru líklegri til að hafa farið yfir viðbrögð við þeim en þeir sem hafa fundið minna fyrir þeim.

Farið yfir rétt viðbrögð við jarðskjáltum - greining

Karlar eru líklegri en konur til að hafa ekki gert neitt til að bregðast við skjálftunum. Fólk er mislíklegt til þess eftir því hvar það býr og fer það ekki alveg eftir því hve mikið skjálftar hafa fundist á því svæði sem það býr á þó íbúar Suðurnesja, höfuðborgarsvæðisins og Vesturlands séu líklegastir til að hafa gert eitthvað. Þeir sem hafa fundið mikið fyrir jarðskjálftum eru líklegri til að hafa brugðist við þeim á einhvern hátt en þeir sem hafa fundið lítið fyrir þeim.

Þeir sem segjast ekki hafa gert neitt - greining

Spurt var:

  • Hefur þú fundið mikið eða lítið fyrir jarðskjálftum síðustu daga eða vikur?
  • Hafa jarðskjálftarnir valdið þér miklum eða litlum áhyggjum?
  • Hefur þú eða annar á heimili þínu gert eitthvað af eftirfarandi vegna skjálftanna?

Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem gerð var dagana 5.—9. mars 2021. Þátttökuhlutfall var 44,8%, úrtaksstærð 1.600 einstaklingar 18 ára eða eldri af öllu landinu valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup.

Nánari upplýsingar um Þjóðarpúls Gallup