Íslendingum sem nota Twitter fjölgar um 7% milli ára og segjast nú 24% landsmanna nota miðilinn samkvæmt nýrri samfélagsmiðlamælingu Gallup. Áhugavert er að eldri kynslóðin notar í auknum mæli Instagram, YouTube og Snapchat, á meðan yngri kynslóðin hefur aukið notkun á Twitter og TikTok. Facebook er sem áður mest notaði samfélagsmiðillinn.
Mynd:Hlutfall Íslendinga sem nota eftirfarandi samfélagsmiðla
Miðaldra fólk flykkist á Instagram
Instagram notkun landsmanna hefur verið á miklu flugi undanfarin ár og mælist nú 65%. Hlutfall 45-54 ára sem nota miðilinn hefur aukist úr 38% í 70% á fjórum árum, en ungt fólk á aldrinum 18-34 hefur verið ráðandi á miðlinum hingað til og mælst yfir 70% svo árum skiptir.
Mynd:Hlutfall 45-54 ára Íslendinga sem nota Instagram
WhatsApp á leiðinni
Ef við viljum vita hvað þau sem eldri eru gera á morgun, skoðum við hvað yngra fólkið er að gera í dag. Hlutfall 18-44 ára sem nota Snapchat hefur minnkað um 8% milli ára á meðan litlar breytingar hafa orðið á notkun meðal 45 ára og eldri. WhatsApp mælist nú með 22% notkun meðal landsmanna og hefur aukist töluvert síðastliðin tvö ár. Sú aukning er drifin áfram af yngri helmingi þjóðarinnar og má leiða að því líkur að þeir eldri fylgi á eftir áður en langt um líður.
Mynd: Hlutfall Íslendinga sem nota WhatsApp
Samfélagsmiðlamæling Gallup veitir nákvæmar upplýsingar um notkun helstu samfélagsmiðla og mikilvægi þeirra í lífi fólks. Nýjsta mælingin var gerð í september 2021 og svarar spurningum á borð við:
- Hver er notkun samfélagsmiðla milli mismunandi aldurshópa og hvernig hefur hún þróast?
- Hver er dekkun hvers samfélagsmiðils innan einstaka markhópa?
- Hversu mikilvægir eru ólíkir samfélagsmiðlar fólki?
- Hverjir eru markhópar vinsælustu íslensku áhrifavaldanna á samfélagsmiðlum og hver eru áhrif þeirra?
- Hversu oft eða sjaldan breytist "læk" í sölu?
Sýnishorn úr samfélagsmiðlamælingu Gallup 2019 er aðgengilegt hér án endurgjalds.
Þú getur pantað heildarskýrslu nýjustu samfélagsmiðlamælingar Gallup með því að senda póst á olafur.elinarson@gallup.is eða hringja í síma 540 1200.