Landsmenn hafa almennt tiltölulega litlar áhyggjur af því að vera á lista Rússlands yfir óvinveittar þjóðir. Rétt rúmlega fjórðungur þjóðarinnar hefur þó miklar áhyggjur af því. Helmingur hefur litlar áhyggjur og tæplega fjórðungur hefur hvorki miklar né litlar áhyggjur af því.

Hversu miklar eða litlar áhyggjur hefur þú af því að Ísland sé á lista Rússlands yfir óvinveittar þjóðir?

Konur hafa meiri áhyggjur af því en karlar að vera á lista yfir óvinveittar þjóðir, fólk yfir sextugu hefur meiri áhyggjur af því en yngra fólk og íbúar landsbyggðarinnar meiri en höfuðborgarbúar. Þau sem kysu Flokk fólksins ef kosið yrði til Alþingis í dag hafa einna mestar áhyggjur af því.

Áhyggjur af því að Ísland sé á lista Rússlands yfir óvninveittar þjóðir - greining

Stjórnmálasamband við Rússa

Meirihluti landsmanna er hlynntur því að Ísland slíti stjórnmálasamstarfi við Rússa eða 65%. Nær 15% eru andvíg því en fimmtungur hvorki hlynntur né andvígur.

Á Ísland að slíta stjórnmálasambandi við Rússland?

Konur eru frekar hlynntar því en karlar að slíta stjórnmálasamstarfi við Rússa og fólk er almennt hlynntar því eftir því sem það er yngra.

Á Ísland að slíta stjórnmálasambandi við Rússland? - greining

Atvinnuleyfi flóttafólks

Afgerandi meirihluti landsmanna er hlynntur því að úkraínskt flóttafólk fái atvinnuleyfi við komuna til Íslands eða nær 87%. Innan við 4% eru andvíg því og einn af hverju tíu eru hvorki hlynntur ná andvígur því.

Á úkraínskt flóttafólk að fá atvinnuleyfi við komuna til Íslands?

Þau sem hafa lokið framhalds- eða háskólaprófi eru örlítið líklegri til að vera hlynnt því að úkraínskt flóttafólk fái atvinnuleyfi við komuna til Íslands en þau sem hafa lokið grunnskólaprófi. Þau sem kysu Sjálfstæðisflokkinn eða Flokk fólksins ef kosið yrði til Alþingis í dag eru síst hlynnt því.

Á úkraínskt flóttafólk að fá atvinnuleyfi við komuna til íslands? - greining

Efnahagsástand á Íslandi og fjárhagur landsmanna

Meirihluti landsmanna hefur miklar áhyggjur af áhrifum ástandsins í Úkraínu á efnahagsástand á Íslandi, eða rúmlega 61%. Um 15% hafa litlar áhyggjur af þeim og hátt í fjórðungur hefur hvorki miklar né litlar áhyggjur af þeim.

Áhyggjur fólks af áhrifum ástandsins í Úkraínu á efnahagsástand á Íslandi

Íbúar landsbyggðarinnar hafa frekar áhyggjur af áhrifum stríðsins á efnahagsástand á Íslandi en höfuðborgarbúar. Munur kemur fram eftir fjölskyldutekjum en þau sem hafa lægstar fjölskyldutekjur hafa einna mestar áhyggjur af þeim. Þau sem kysu Vinstri græn, Sjálfstæðisflokk eða Flokk fólksins hafa einna mestar áhyggjur en þau sem kysu Príata minnstar.

Áhyggjur fólks af áhrifum ástandsins í Úkraínu á efnahagsástand á Íslandi - greining

Áhyggjurnar eru minni þegar spurt er um persónulegan fjárhag. Hátt í þriðjungur hefur miklar áhyggjur af áhrifum ástandsins í Úkraínu á fjárhag sinn persónulega, nær 36% hafa litlar áhyggjur og þriðjungur hvorki miklar né litlar áhyggjur.

Áhyggjur af áhrifum ástandsins í Úkraínu á persónulegan fjárhag fólks

Fólk milli fertugs og sextugs hefur helst áhyggjur af áhrifum stríðsins á efnahag sinn en síst fólk undir þrítugu. Þau sem kysu Flokk fólksins eða Sjálfstæðisflokkinn hafa einna helst áhyggjur af efnahag sínum.

Áhyggjur af áhrifum ástandsins í Úkraínu á persónulegan fjárhag fólks - greining

Spurt var:

  • Hversu miklar eða litlar áhyggjur hefur þú af því að Ísland sé á lista Rússlands yfir óvinveittar þjóðir?
  • Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ert þú því að Ísland slíti stjórnmálasamstarfi við Rússland?
  • Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ert þú því að úkraínskt flóttafólk fái atvinnuleyfi við komuna til Íslands?
  • Hversu miklar eða litlar áhyggjur hefur þú af áhrifum ástandsins í Úkraínu á efnahagsástand á Íslandi?
  • Hversu miklar eða litlar áhyggjur hefur þú af áhrifum ástandsins í Úkraínu á fjárhag þinn persónulega?

Niðurstöður sem hér birtast eru ú netkönnun sem Gallup gerði dagana 11. til 21. mars 2022. Heildarúrtaksstærð var 1.644 og þátttökuhlutfall var 52,4%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.