Notkun ungs fólks á rafrettum (vape), nikótínpúðum/-pokum (pouch) og orkudrykkjum hefur verið talsvert í umræðunni undanfarið. Við spurðum um notkun landsmanna á þessum vörum og sígarettum og var könnunin gerð dagana 3. - 12. febrúar síðastliðinn.

Sígarettur

Tæplega 5% reykja sígarettur daglega og hefur hlutfallið lækkað um fjögur prósentustig á þremur árum. Um 37% hafa aldrei prófað að reykja og hefur það hlutfall hækkað um þrjú prósentustig á þremur árum.

Notkun á sígrarettum febrúar 2023

Enginn svarenda undir þrítugu sagðist reykja sígarettur reglulega eða daglega. Tæplega 4% landsmanna milli þrítugs og fimmtugs reykja hins vegar daglega og 7-8% fólks yfir fimmtugu. Nær 7% fólks undir fertugu notar hins vegar sígarettur endrum og eins en rúmlega 3% fólks yfir fertugu.

Nær 7% íbúa landsbyggðarinnar reykja daglega á móti tæplega 4% íbúa höfuðborgarsvæðisins. Hlutfall þeirra sem hafa aldrei prófað að reykja er einnig hærra meðal íbúa landsbyggðarinnar en höfuðborgarsvæðisins. Hlutfall þeirra sem hafa reykt, hafa prófað að reykja eða reykja endrum og eins er hins vegar hærra meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins en landsbyggðarinnar.

Fólk með meiri menntun að baki er ólíklegra til að reykja daglega en fólk með minni menntun, og líklegra til að hafa aldrei prófað að reykja. Fólk með hærri fjölskyldutekjur er sömuleiðis almennt ólíklegra til að reykja daglega en fólk með lægri fjölskyldutekjur, og líklegra til að hafa aldrei prófað að reykja.

Þau sem kysu Flokk fólksins ef kosið yrði til Alþingis í dag eru líklegri til að reykja daglega en þau sem kysu aðra flokka. Þau sem kysu Framsóknarflokkinn eru hins vegar líklegra til að hafa aldrei prófað að reykja en þau sem kysu aðra flokka.

Notkun á sígarettum í febrúar 2023 greining

Rafsígarettur

Nær 4% nota rafsígarettur daglega og rúmlega 5% til viðbótar nota þær reglulega eða endrum og eins. Samtals gera þetta 9% en fyrir þremur árum var sambærilegt hlutfall 5%. Þeim hefur jafnframt fækkað um 6 prósentustig sem hafa aldrei prófað rafrettur.

Notkun á rafsígarettum í febrúar 2023

Fleiri konur en karlar nota rafsígarettur en þær eru þó líklegri en karlar til að nota þær bara endrum og eins. Notkunin er algengust hjá fólki undir fertugu. Munur er eftir tekjum en þau sem hafa lægstar fjölskyldutekjur eru að jafnaði líklegri til að nota rafrettur en þau sem hafa hærri tekjur. Þau sem kysu Flokk fólksins eða Pírata ef kosið yrði til Alþingis í dag eru líklegri til að nota rafrettur en þau sem kysu aðra flokka á meðan þau sem kysu Vinstri græn eða Miðflokkinn eru ólíklegust til þess.

Notkun á rafsígarettum í febrúar 2023 greining

Nikótínpúðar

Notkun á nikótínpúðum hefur aukist mikið síðan fyrir þremur árum. Hlutfall þeirra sem nota þá daglega hefur þrefaldast, eða farið úr 4% í rúmlega 12%. Þeim fækkar um 13 prósentustig sem hafa ekki prófað púðana og þar af fækkar þeim um tíu prósentustig sem hafa ekki heyrt um þá.

Notkun á nikótínpúðum í febrúar 2023

Aðeins fleiri karlar en konur nota nikótínpúða og aðeins fleiri karlar en konur hafa prófað þá. Notkunin er mjög aldurstengd en fólk er líklegra til að nota púðana eftir því sem það er yngra. Þriðjungur fólk á aldrinum 18-29 ára notar púðana daglega en nær sex af hverjum tíu í þessum aldurshópi hafa prófað þá. Hlutfall fólks á aldrinum 18-29 ára sem notar púðana daglega fór úr 10% í 33% á síðastliðnum þremur árum og hlutfall fólks á aldrinum 30-39 ára sem notar þá daglega fór úr 6% í 21%. Einnig er munur eftir tekjum og því hvað fólk kysi ef kosið yrði til Alþingis í dag. Þau sem kysu Framsóknarflokkinn eru ólíklegust til að nota nikótínpúða.

Notkun á nikótínpúðum í febrúar greining

Orkudrykkir

Neysla orkudrykkja hefur sömuleiðis aukist mikið síðan fyrir þremur árum og hlutfall þeirra sem neyta drykkjanna daglega hefur aukist um fimm prósentustig.

Notkun á orkudrykkjum í febrúar 2023

Neyslan hefur aukist mest hjá fólki á aldrinum 30-39 ára en hlutfall fólks á þessum aldri sem drekkur orkudrykki hefur nær tvöfaldast. Hlutfall fólks á aldrinum 18-29 ára sem neytir orkudrykkja daglega eða reglulega hefur einnig hækkað og hlutfall fólks á aldrinum 40-49 ára sem drekkur orkudrykki daglega hefur sömuleiðis hækkað.

Þau sem hafa yfir 800.000 kr. í fjölskyldutekjur á mánuði eru líklegri til að neyta orkudrykkja en þau sem hafa lægri tekjur. Þau sem kysu Pírata eru líklegri til að drekka orkudrykki en þau sem kysu aðra flokka, en þau sem kysu Vinstri græn ólíklegri.

Notkun á orkudrykkjum í febrúar 2023 greining

Spurt var:

  • Hvað af eftirfarandi á best við um notkun þína á eftirfarandi dag? Sígarettum, Rafsígarettum (vape), Nikótínpúðum/-pokum (pouch), Orkudrykkjum.

Niðurstöðum sem hér birtast eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 3. til 12. febrúar 2023. Heildarúrtaksstærð var 1.695 og þátttökuhlutfall var 50,7%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.