Af þeim ferðamönnum sem sóttu Ísland heim í ágústmánuði voru Bandaríkjamenn ánægðastir með Íslandsdvöl sína. Ánægja þeirra mældist samkvæmt Ferðamannapúlsinum 85,6 stig af 100, en hann er stærsti hópur ferðamanna hér á landi eða 40% allra ferðamanna. Ferðamenn frá Ástralíu eru einnig ánægðir með dvöl sína með 83,8 stig. Einnig voru Bretar meðal fimm ánægðustu ferðamannahópa í ágúst en ánægja þeirra mældist 82,2 stig.

Ferðamannapúls ágúst 2018 efstu 5

Ekki hærri síðan í nóvember 2017

Ferðamannapúlsinn í ágúst mældist 83,9 stig af 100 stigum mögulegum og var því 1,1 stigi hærri en júlí, en Ferðamannapúlsinn hefur ekki mælst hærri síðan í nóvember síðastliðnum.

Ferðamannapúls ágúst 2018 heild

Erlendir ferðamenn mjög líklegir til að mæla með Íslandi sem áfangastað

Ferðamannapúlsinn er metinn út frá fimm undirþáttum: heildaránægju með ferðina, líkum á að mæla með Íslandi sem áfangastað, skynjun á gestrisni Íslendinga, hvort að ferðin hafi uppfyllt væntingar og hvort að ferðin hafi verið peninganna virði. Líkur á meðmælum er sá þáttur sem mældist hæstur í júní, eða 89,2 stig af 100 mögulegum á meðan mat ferðamanna á hvort ferðin hafi verið peninganna virði var sá þáttur sem mældist lægstur, eða 78,2 stig af 100 mögulegum.

Ferðamannapúls ágúst 2018 undirþættir

Allir undirþættir hækka

Mælingar á öllum undirþáttum Ferðamannapúlsins hækkuðu milli mánaða. Hækkunin var mest á því hversu líklegir ferðamenn eru til að mæla með Íslandi sem áfangastað, hækkun um 1,8 stig. Allir undirþættir voru enn fremur hærri heldur en í ágúst 2017, en þar er munurinn mestur á því hvort að ferðamönnum hafi þótt ferðin vera peninganna virði (aukning um 1,8 stig).

* Ferðamannapúlsinn er samstarfsverkefni Isavia, Ferðamálastofu og Gallup og byggja mælingar á netföngum ferðamanna sem fara í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Nánari upplýsingar um Ferðamannapúlsinn