Líkt og fram kom í síðustu viku jókst fjölmiðlanotkun landsmanna mikið um miðjan mars samhliða aukinni umfjöllun um Covid-19 https://www.gallup.is/frettir/storaukin-fjolmidlanotkun-i-skugga-korona-veiru/. Þegar niðurstöður síðustu viku (16.-20. mars 2020) eru skoðaðar má áfram greina aukningu á fjölmiðlanotkun. Þannig notaði meginþorri landsmanna eða um 234.000 Íslendingar á aldrinum 12-80 ára eitthvað mælda ljósvakamiðla í síðustu viku.

Ungt fólk horfir og hlustar meira en áður

Aukningin í sjónvarpsáhorfi og útvarpshlustun á mældar stöðvar heldur áfram hjá öllum landsmönnum, þannig er 14% aukning í ljósvakanotkun frá því í febrúar og 15% aukning sé litið til sama tíma í fyrra.

Sjónvarpsáhorf og útvarpshlustun yfir daginn í viku 12 árið 2020

Aukningin er lang mest hjá 12-24 ára eða 30% meiri miðað við síðasta mánuð og 43% aukning samanborið við sömu viku í mars 2019. Það má því leiða líkum að því að fjarkennsla í skólum og samkomubann leiði til nokkuð aukinnar fjölmiðlanotkunar hjá ungu fólki.

Ekki bara fréttir, skemmtiefni slær líka í gegn

Á þessum tímum þegar almenningur leitar mikið í fréttir sést líka að léttara efni hittir í mark. Þegar vinsælasta efni sjónvarpsstöðvanna í síðustu viku er skoðað sést að skemmtiþættir, léttir spjallþættir og bíómyndir raða sér á listana inn á milli frétta og fréttatengdra þátta. Listann yfir vinsælustu þætti sjónvarpsstöðvanna má finna hér https://www.gallup.is/nidurstodur/fjolmidlar/sjonvarp/ og er listinn uppfærður vikulega.

Nánari upplýsingar um fjölmiðlanotkun landsmanna, eins og áhorf og hlustun á einstakar stöðvar, lestur dagblaða og notkun á einstaka netmiðlum má finna hér: https://www.gallup.is/nidurstodur/fjolmidlar/