Nokkur hreyfing er á fylgi flokka nú í aðdraganda kosninga. Helsta breytingin frá síðustu mælingu, sem fram fór fyrri hlutann í september, er að fylgi Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar mælist hærra, en fylgi Sjálfstæðisflokks og Pírata mælist lægra.

fylgi flokka okt 2016

Eina tölfræðilega marktæka breytingin milli mælinga er fylgisaukning Bjartrar framtíðar sem bætir við sig tæpum tveimur prósentustigum milli mælinga, en nær 5% segjast myndu kjósa Bjarta framtíð færu kosningar til Alþingis fram í dag. Tæplega 16% segjast myndu kjósa Vinstri græn, sem er um tveimur prósentustigum meira en í síðustu mælingu. Tæplega 21% segist myndi kjósa Pírata sem er tæplega þremur prósentustigum minna en í síðustu mælingu og nær 24% segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn sem er um tveimur prósentustigum minna en fyrri hluta september.Fylgi annarra framboða breytist lítið eða á bilinu 0,1 - 1,2%. Ríflega 13% segjast myndu kjósa Viðreisn, rúmlega 8% Samfylkinguna og Framsóknarflokkinn, tæplega 3% Íslensku þjóðfylkinguna, ríflega 1% Dögun og tæplega 1% Flokk fólksins og Alþýðufylkinguna.1Tæplega 10% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og liðlega 8% svarenda segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag.

Stuðningur við ríkisstjórn

Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar um tvö prósentustig frá síðustu mælingu en nær 36% segjast styðja ríkisstjórnina.

studningur okt 2016

Spurt var:

  • Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa?
  • En hvaða flokkur yrði líklegast fyrir valinu?
  • Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?
  • Styður þú ríkisstjórnina?

Niðurstöður sem hér birtast um fylgi flokkanna á landsvísu eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 16. til 29. september 2016. Heildarúrtaksstærð var 3.035 og þátttökuhlutfall var 59,2%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 1,1-2,2%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

1 Fylgi Íslensku Þjóðfylkingarinnar mælist 2,6%, Dögunar 1,3%, Flokks fólksins 0,9% og Alþýðufylkingarinnar 0,7%.

Nánari upplýsingar um Þjóðarpúls Gallup