Langflestir Íslendingar telja að stríð og átök séu mikilvægasta vandamálið sem heimurinn stendur frammi fyrir í dag. Nær 43% telja það mikilvægasta vandamálið en fyrir rúmum áratug töldu rúmlega einn af hverjum tíu það. Næstflestir telja mikilvægasta vandamálið vera fátækt, bilið milli ríkra og fátækra, eða ríflega 9%, en fyrir rúmlega áratug töldu flestir fátækt vera mikilvægasta vandamálið, eða um og yfir fjórðungur landsmanna.
Konur telja frekar en karlar að stríð og átök séu mikilvægasta vandamálið sem heimurinn stendur frammi fyrir í dag. Karlar telja hins vegar frekar en konur að fólksflótti, trúarofstæki og efnahagsleg vandamál séu mikilvægustu vandamálin. Fólk yfir fertugu telur frekar en yngra fólk að stríð og átök séu mikilvægasta vandamálið sem heimurinn stendur frammi fyrir. Fólk undir fertugu telur hins vegar frekar en eldra fólk að efnahagsleg vandamál og heilbrigðisvandamál séu mikilvægust. Fólk yfir fimmtugu telur frekar en yngra fólk að trúarofstæki sé mikilvægasta vandamál heimsins.
Fólk með háskólapróf telur frekar en fólk með minni menntun að stríð og átök séu mikilvægasta vandamálið sem heimurinn stendur frammi fyrir og sama má segja um umhverfis- og loftslagsmál. Það telur hins vegar síður en fólk með minni menntun að spilling sé mikilvægasta vandamálið.
Tveir af hverjum þremur sem kysu Framsóknarflokkinn ef kosið yrði til Alþingis í dag telja stríð og átök mikilvægasta vandamálið sem heimurinn stendur frammi fyrir í dag en aðeins 16% þeirra sem kysu Sósíalistaflokkinn. Ríflega 35% þeirra sem kysu Sósíalistaflokkinn telja fátækt mikilvægasta vandamálið, 14% þeirra sem kysu Samfylkinguna en 5% eða færri þeirra sem nefna aðra flokka. Nær 11% þeirra sem kysu Viðreisn telja hryðjuverk mikilvægasta vandamálið en 5% eða færri þeirra sem kysu aðra flokka. Nær 16% þeirra sem kysu Miðflokkinn telja fólksflótta mikilvægasta vandamálið en 6% eða færri þeirra sem kysu aðra flokka.
Þeir sem styðja ríkisstjórnina eru líklegri en þeir sem styðja hana ekki til að telja fátækt mikilvægasta málið sem heimurinn stendur frammi fyrir á meðan því er öfugt farið varðandi fólksflótta, heilbrigðismál, hryðjuverk og efnahagsmál.
Nánari greiningu má finna hér