Hugtakið woke hefur verið áberandi í samfélagsumræðunni upp á síðkastið, bæði hérlendis og erlendis. Það hefur helst verið tengt við félagslega meðvitund, réttlæti og jafnrétti, þó túlkun þess sé ekki alltaf samhljóma. Margir deila um merkingu hugtaksins og hvernig það birtist í raunveruleikanum.

Nýleg könnun Gallup leitaði svara við því hvort Íslendingar teldu sig sjálfa woke. Rúmlega 26% landsmanna tengdu sig við hugtakið, um 31% tengdu sig ekki við hugtakið en tæplega 43% skildu einfaldlega ekki orðið woke. Einna áhugaverðast var að greina niðurstöðurnar eftir kjósendum stjórnmálaflokkanna.

Af þeim sem sögðust myndu kjósa Pírata ef kosið yrði til Alþingis í dag, töldu ríflega 97% sig vera woke. Tæplega helmingur kjósenda Samfylkingarinnar sögðust einnig tengja sig við hugtakið. Hlutföllin eru þó mun lægri meðal kjósenda annarra flokka: Rösklega 7% kjósenda Sjálfstæðisflokksins telja sig woke og liðlega 6% hjá kjósendum Flokks fólksins. Þá sögðust um 66% kjósenda Miðflokksins ekki telja sig woke, 56% kjósenda Sjálfstæðisflokksins, rúmlega 34% hjá Framsókn ásamt sléttum 28% kjósenda Viðreisnar.

Þess ber einnig að geta að töluverður hluti svarenda sagðist einfaldlega ekki skilja hugtakið. Þar vega kjósendur Flokks fólksins þyngst – 67% þeirra sögðust ekki vita hvað woke þýðir. Hjá Viðreisn voru það liðlega 50% sem sögðust ekki skilja orðið og nær 46% hjá Framsókn. Hjá öðrum flokkum var þessi vanþekking á hugtakinu mun minni en nær 3% kjósenda Pírata sögðust ekki hafa skýra mynd af hugtakinu.