Ferðamannapúlsinn hækkar lítillega milli mánaða en einkunnin í september er 84,9 stig af 100 mögulegum en var 83,6 stig í ágúst. Þeir sem sækja Ísland heim eru áfram mjög líklegir til að mæla með landinu sem áfangastað.

Ferðamannapúls sept 2016_heild

Konur að jafnaði ánægðari en karlar með Íslandsheimsókn

Í september gáfu ferðamenn frá Austurríki og Póllandi hæstu einkunnina eða tæplega 89 stig. Japanir eru síst ánægðir þeirra ferðamanna sem sóttu Ísland heim í september en þeir gefa liðlega 79 stig í meðaleinkunn. Írar gefa næst lægstu einkunnina eða nær 82 stig. Þegar niðurstöður Ferðamannapúlsins eru skoðaðar eftir kyni þá kemur í ljós að konur gefa Íslandsheimsókninni að jafnaði hærri einkunn er karlar.

Ferðamannapúls sept 2016_hæstu og lægstu

Gestir líklegir til að mæla með Íslandi sem áfangastað

Ef litið er til undirþátta Ferðamannapúlsins þá hækka þeir allir milli mánaða. Mesta hækkunin er á þætti sem lýtur að því hvort ferðin hafi verið peninganna virði en í september er einkunnin 80,5 stig af 100 mögulegum en var 77,6 stig í ágúst.

Ferðamannapúls sept 2016_undirþættir

Sá undirþáttur sem þátttakendur í Ferðamannapúlsinum meta jafnan hæst snýr að líkum á því að mæla með Íslandi sem áfangastað en einkunnin hefur ekki farið undir 90 stig frá því að mælingar hófust í febrúar. Í september er einkunnin 91,6 stig á heildina og eru Ungverjar líklegastir til að mæla með Íslandi sem áfangastað en þar á eftir koma Austurríkismenn, Slóvakar og Pólverjar með yfir 95 stig í einkunn. Japanir, Hollendingar, Bretar og Kanadamenn gefa hins vegar einkunn undir 90 stigum á meðmælaþættinum.

* Ferðamannapúlsinn er samstarfsverkefni Isavia, Ferðamálastofu og Gallup og byggja mælingar á netföngum ferðamanna sem fara í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Nánari upplýsingar um Ferðamannapúlsinn