Ferðamannapúlsinn lækkar lítillega milli mánaða en einkunnin í nóvember er 82,7 stig af 100 mögulegum en var 83,6 stig í október. Þess ber þó að geta að ekki er um marktæka lækkun að ræða.

Ferðamannapúls nóvembe 2016 heild

Danir ánægðastir í nóvember

Í nóvember gáfu Danir hæstu einkunnina eða 88,6 stig. Þar á eftir koma Bandaríkjamenn með 85,4 stig og þá Þjóðverjar, Svíar og Frakkar. Líkt og í síðasta mánuði eru Írar síst ánægðir þeirra ferðamanna sem sóttu Ísland heim í nóvember en þeir gáfu 79,8 stig í meðaleinkunn.

Ferðamannapúls nóvember 2016_hæstu og lægstu

Bretar fá minna fyrir peninginn

Umræða um styrkingu krónunnar og neikvæð áhrif hennar á ferðaþjónustu hefur verið áberandi að undanförnu. Einn af undirþáttum Ferðamannapúlsins snýr að því hvort Íslandsferðin hafi verið peninganna virði. Sá þáttur lækkar um rúm 2 stig milli mánaða, úr 79,1 stigi í október í 77 stig í nóvember, af 100 mögulegum. Þegar litið er á niðurstöður þessa þáttar yfir lengra tímabil þá hefur einkunnin lækkað um 5,4 stig frá því í febrúar 2016. Hins vegar ef niðurstöður Breta eru skoðaðar sérstaklega þá hefur einkunn þeirra lækkað um rúmlega 10 stig á sama tímabili, úr 83,2 stigum í 73,1 stig nú. Mat ferðamanna af öðru þjóðerni á því hvort ferðin til Íslands hafi verið peninganna virði hefur lækkað minna á tímabilinu.

Ferðamannapúls nóvember 2016 undirþættir

* Ferðamannapúlsinn er samstarfsverkefni Isavia, Ferðamálastofu og Gallup og byggja mælingar á netföngum ferðamanna sem fara í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Nánari upplýsingar um Ferðamannapúlsinn